138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að hlutur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í þeirri atburðarás sem leiddi til efnahagshrunsins sé mikill og óumdeildur. Forsetinn var þó ekki með beinum hætti aðili í viðskiptum eða fjármálaumsvifum þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem hann mærði sjálfur svo mjög árum saman, í það minnsta svo vitað sé. Það mætti þó ætla að miðað við allt það sem forsetinn lagði á sig við að markaðssetja íslensku útrásina að hann hafi sjálfur haft beinna hagsmuna að gæta og hafi treyst á ríkulega uppskeru þegar að henni kæmi. Það á kannski eftir að koma síðar í ljós hvort svo hafi verið.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, bar útrásina á herðum sér um heim allan. Hvert sem leið forsetans lá fetaði útrásargengið í sporin hans og hvert sem forsetinn fór um heiminn gekk hann erinda þeirra sem steyptu þjóðfélaginu að lokum á endann í fullkomið efnahagshrun. Forsetinn var klappstýra útrásarinnar, ekki sá eini í hópnum en án vafa sá sem mest bar á og sá sem mest áhrif hafði á framgang hennar erlendis. Forsetinn söng ekki síður útrásarsöngva en þeir þingmenn og ráðherrar sem sungu þá hvað hæst héðan úr þessum ræðustól á þeim árum. Það er erfitt að trúa því við lestur skýrslunnar góðu að forseti Íslands hafi farið fram með þeim hætti sem þar er lýst í einhverjum óvitaskap eða af einfeldningshætti. Atvikin eru of mörg, markmið hans svo skýr og pólitísk reynsla forsetans slík að útiloka má að um einskæran kjánaskap hafi verið að ræða, þó að ekki sé rétt að líta fram hjá því með öllu.

Í skýrslunni er rakið hvernig Ólafur Ragnar Grímsson tók við keflinu af forvera sínum, Vigdísi Finnbogadóttur, við að kynna Ísland á erlendum vettvangi, kynna íslenska menningu, íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf. Núverandi forseta hefur hins vegar ekki fundist forveri sinn nógu markviss á þessum vettvangi og séð önnur tækifæri til að beita sér í þágu aukinna viðskipta Íslendinga á erlendri grund. Útrásargengið varð fljótt líkt og heimagangar á Bessastöðum, bústað forseta Íslands, tíðir gestir og jafnvel voru skipulögð sérstök boð í forsetabústaðnum genginu til heiðurs í þágu viðskipta þeirra, eins og lesa má um í skýrslunni.

Eftir aldamótin 2000 hófust umfangsmikil ferðalög forsetans um heim allan í félagi við aðila í viðskiptalífinu. Í skýrslunni segir m.a. um þetta, með leyfi forseta:

,,Eftir aldamótin 2000 tók hann iðulega þátt í fundum eða hélt fyrirlestra þar sem hann þróaði smátt og smátt kenningu sína um hlutverk og tækifæri smáríkja og sérstöðu íslenskra fyrirtækja byggða á séríslenskum eiginleikum ættuðum frá víkingum.“

Og hver var svo þessi sérstaða íslenskra fyrirtækja að mati forsetans? Á hverju byggði hann þessa kenningu sína sem hann þróaði um að íslenskir viðskiptamenn stæðu öðrum mönnum framar? Í hverju fólust yfirburðir hins íslenska útrásarstofns að mati forseta Íslands?

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir um þetta, með leyfi forseta:

„Í október 2003 hélt forsetinn ávarp á fjárfestingarráðstefnu í Kaupmannahöfn. Þá kynnti hann erlendum þátttakendum í fyrsta sinn kenningu sína um þá þætti sem skiptu sköpum við að tryggja velgengni íslensks viðskiptalífs á erlendri grundu. Þessum þáttum, sem voru sex talsins, átti eftir að fjölga. Í fyrsta lagi nefndi forsetinn að mikil samskipti væru milli manna innan viðskiptalífsins, þvert á fyrirtæki og greinar. Í öðru lagi væri viðskiptalífið mjög árangursmiðað, gengið væri hreint til verks við að leysa verkefnin og minnisblöð og fundargerðir væru ekki að þvælast fyrir. Í þriðja lagi væri íslensk framkvæmdagleði laus við skriffinnskuaðferðir, hugsanlega vegna mannfæðar, en um leið fengju athafnamenn aukið frelsi. Í fjórða lagi væru samskipti mjög persónuleg, þau byggðust á trausti milli manna í fornum anda. Það gæfi færi á meiri hraða við ákvarðanatöku. Í fimmta lagi hefði frumkvöðlahugarfar þróast um aldir við veiðar og landbúnað þar sem frumkvæði einstaklingsins skipti sköpum í baráttu við náttúruöflin.“ — Í sjötta lagi var það svo sköpunarkrafturinn sem forseti Íslands taldi til þessara eiginleika útrásarvíkinganna.

Forseti Íslands bætti síðar um betur og lengdi lista sinn yfir þá þætti sem hann taldi sýna yfirburði íslenska útrásarstofnsins umfram aðra. Nú var það vinnusiðferði, árangurstækni, áhættusækni, lítil skriffinnska, persónulegt traust, litlir hópar sem ynnu þétt saman og tækju skjótar ákvarðanir, frumkvöðlaandi, arfur landkönnunar og uppgötvana, orðstír einstaklinga, þjálfun sem menn fengju á íslenskum markaði, náin tengsl milli fólks á Íslandi og svo sköpunarkrafturinn. Allt samanlagt að mati forsetans undirstrikaði yfirburði Íslendinga umfram aðrar þjóðir á sviði viðskipta og fjármála.

Flest af þessum meintu eiginleikum íslensku útrásarmannanna reyndust á endanum það sem varð þeim að falli og þjóðinni í leiðinni. Forsetinn hefði allt eins getað talið upp dauðasyndirnar sjö sem eiginleika útrásarliðsins, því að á endanum var það hrokinn, ágirndin, vanþakklætið og munaðarlífið sem leiddi til þess ófarnaðar sem þjóðin öll var dregin í.

Í skýrslunni eru rakin átakanleg dæmi um viðleitni forsetans til að ryðja braut útrásargengisins um allan heim. Bréfaskipti forsetans við þjóðhöfðingja annarra landa í þágu útrásarinnar og undirlægjuhátturinn sem í athöfnum forsetans fólst er honum sjálfum og forsetaembættinu til skammar og niðurlægjandi fyrir íslenska þjóð. Það virðist engu hafa skipt fyrir forsetann þó svo að aðvörunarljósin hafi farið að blikka í aðdraganda hrunsins, jafnvel fram á árið 2008 var forsetinn fremstur í hópi þeirra sem snerust gegn allri gagnrýni á íslenskt viðskiptalíf og taldi hættumerkin ofmetin. Að hans mati þyrftu Íslendingar aðeins að leggja sig enn meira fram en áður við að kynna Ísland á erlendum vettvangi. Allt fram til 22. maí ársins 2008 hélt forseti Íslands því merki á lofti. Þá var síðasta bréf hans til Austurlanda nær skrifað í þeim tilgangi að mæra íslensku útrásarvíkingana.

Að mati skýrsluhöfunda má daga þann lærdóm af framgöngu forseta Íslands á þessum vettvangi að skýra þurfi betur hlutverk forseta í stjórnarskrá, að setja verði reglur um hlutverk hans og samskipti við önnur ríki og æskilegt væri að setja forsetaembættinu siðareglur, m.a. um það með hvaða hætti er eðlilegt að forsetinn veiti viðskiptalífinu stuðning. Það er auðvelt að taka undir þetta mat skýrsluhöfunda af þeim lærdómi sem draga má af háttalagi forseta Íslands en það þarf meira til. Nafn Íslands hefur verið misnotað og það hefur verið farið illa með það á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Þar ber forseti Íslands þunga ábyrgð líkt og margir aðrir. Staða forsetaembættisins og það vægi sem forsetinn hefur sem þjóðhöfðingi á erlendum vettvangi gerir hlut hans hins vegar alvarlegri en stjórnmálamanna að mörgu leyti. Það á að gera þá kröfu til forseta Íslands að hann geri Alþingi grein fyrir þætti sínum í því leikriti sem hann setti upp og stjórnaði í kringum foringja útrásarinnar að mati skýrsluhöfunda. Það væru eðlileg viðbrögð af hálfu forseta Íslands að ávarpa þingið og þjóðina héðan úr þessum ræðustól, gera upp við fortíðina, biðja þing og þjóð afsökunar og víkja síðan til hliðar og gefa öðrum sem svipað er ástatt um gott fordæmi. Það væri gott og ágætt skref fyrir forseta Íslands, ágætt fyrsta skref fyrir forseta Íslands til að leiða þjóðina til nýrra og betri tíma.