138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:36]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ágætt svar hv. þm. Birgis Ármannssonar við spurningum mínum og hugleiðingum að mestu. Hér þarf að taka það fram að hvorugur okkar hefur væntanlega lesið skýrsluna í þaula enda er það talsvert langt verk og spannar margar nætur og daga.

Mig langar líka að staldra við framtíðina sem blasir við okkur í regluverki og lagasetningu hvað varðar rekstrarform bankastofnana á Íslandi. Nú var það einu sinni svo að þessir ágætu bankar voru einkavæddir og margir kannast við mistök í þeim efnum. Vafalaust lærum við af þeim mistökum og verðum að gera, hvað varðar dreifða eignaraðild og síðari tíma krosseignatengsl og ég tala nú ekki um stjórn eigenda á þessum bankastofnunum eins og ítarlega er komið inn á í skýrslunni.

Hvaða lærdóm dregur hv. þm. Birgir Ármannsson af rekstri einkaaðila á bönkum? Getum við treyst einkaframtakinu aftur til að geyma og ávaxta sparnað almennings með tryggum og ábyrgum hætti eins og ég kom inn á í ræðu minni? Þurfum við að einhverju leyti að fara að horfa til annars konar rekstrarforms á bönkum þegar haft er í huga að þeir geyma viðkvæmustu eignir alls almennings? Er íslenska einkaframtakið nógu agað, heiðarlegt og siðað til þess að takast á við það gríðarlega erfiða hlutverk sem er að gæta fjármuna félaga, fyrirtækja og ekki síst alls almennings? Eigum við að hugsa einhverjar breytingar? Eigum við að draga stóran lærdóm af því sem varð í þessu kerfishruni hvað þetta varðar?