138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn á ég að sjálfsögðu erfitt með að ræða þessa skýrslu í heild sinni enda ekki búin að lesa hana í þaula. Þó vil ég segja að það sem ég hef lesið í henni gefur til kynna að við gerð hennar hafi verið vel að verki staðið. Ég veit það að margir, bæði almenningur, hv. þingmenn og fleiri, höfðu áhyggjur af því að hér mundi kannski verða einhvers konar „antiklímax“ þegar þessi skýrsla kæmi út, en ég held að við getum verið sátt við það að hér hefur verið vel að verki staðið. Sumir hafa sagt að hér sé ekkert nýtt á ferð. Ég er ekki sammála því. Þó að fjallað hafi verið um marga af þessum einstöku atburðum og einstöku staðreyndum má segja að það sé ákveðinn nýr sannleikur í því þegar allt er sett í samhengi, þegar heildarmyndin er dregin upp, sem er mjög lærdómsríkt, en líka kemur þar líka margt fram sem ekki hefur áður komið fram.

Mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni í þessari stuttu ræðu 8. bindið þar sem er fjallað um siðferði og starfshætti í íslensku fjármálalífi, tengja það við umræðuna um gildi og gildismat, sem var áberandi fyrst eftir hrun en dofnaði kannski yfir þegar farið var að fást við efnahagsleg eftirköst hrunsins. Það er margt sem slær mann við lestur þessa rits sem var unnið af siðfræðinefndinni svokölluðu, Vilhjálmi Árnasyni, Salvöru Nordal og Kristínu Ástgeirsdóttur. Það sem kannski slær mann ekki minnst er það mat að reynsla skipti ekki máli því að við sjáum það að margir stjórnendur bankanna voru ungir menn, nýkomnir með háskólapróf, hugsanlega MBA-gráðu. Þeir höfðu svipaðan bakgrunn og ekki mikla reynslu af hefðbundnum bankastörfum. (Gripið fram í.) Þetta sýnir manni að það skiptir máli að meta reynslu, en í þessu hraða samfélagi og æskudýrkunarsamfélagi var kannski minna lagt upp úr reynslu en hefði mátt gera. Það vekur líka athygli manns að það sem áður voru taldir styrkleikar hins íslenska fjárhagskerfis, hin óformlegu samskipti, stuttar boðleiðir milli viðskipta og stjórnmála — þetta var talið upp sem styrkleikar íslensks fjármálakerfis, en um leið urðu þetta veikleikar þegar of langt var gengið. Það er því margt sem þarna situr eftir sem skiptir máli að ekki sé lokað inni í skýrslu sem þessari. Margt í allri skýrslunni tel ég að kalli á sérstakar umræður, ekki bara hér á þinginu heldur líka úti í samfélaginu.

Við uppsetningu á skýrslunni eru dregnir ýmsir lærdómar. Ég held að stjórnmálamenn geti þar dregið mikla lærdóma. Það þarf að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála. Setja þarf skýrar reglur um styrki til stjórnmálamanna, gegnsæi í bókhaldi stjórnmálaflokka. Í þessu hefur auðvitað verið unnið á undanförnum árum í samvinnu flokka og það er vel. Það skiptir máli að við séum vakandi gagnvart þessu. Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og þær skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill. Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn. Enn fremur er rætt um að stórefla þurfi fagmennsku og vinnubrögð innan stjórnsýslu með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.

Þetta eru auðvitað lykilatriði sem við stjórnmálamenn og embættismannakerfið þurfum að draga lærdóm af. Þegar hefur verið sett vinna í gang við að skoða starfshætti Stjórnarráðsins af hálfu hæstv. forsætisráðherra, en mér finnst líka mikilvægt að við ræðum um starfshætti Alþingis, starfshætti stjórnmálamanna og starfshætti stjórnmálaflokkanna. Eitt af því sem ég tók eftir í þessari skýrslu siðfræðinefndarinnar er að þar er kveðið á um að stjórnmálaflokkar þurfi að vanda betur til stefnumótunar svo að kjósendur átti sig betur á þeim valkostum sem þeir standa frammi fyrir, nokkuð sem manni finnst kannski að ætti að vera sjálfgefið en ætti þó að vekja mann til umhugsunar um umræðuna sem nú hefur verið áberandi um vantraust fólks almennt til stjórnmálamanna, stjórnmálastéttarinnar. Er þetta einn hópur eða eru hugmyndafræðileg mörk stjórnmálaflokka og hugmyndafræðileg staða hvers einstaks stjórnmálamanns, eru þau orðin óljós í hugum almennings? Það er a.m.k. niðurstaða skýrsluhöfunda sem mér finnst að við sem stjórnmálamenn þurfum að taka alvarlega og ræða og velta fyrir okkur.

Mig langar að nefna hér, því tíminn er skammur, sérstaklega það sem tengist málaflokkum sem varða mitt ráðuneyti. Ég nefni þátt fjölmiðla en þeir eru teknir sérstaklega fyrir í skýrslunni. Meðal annars er kveðið á um að styrkja þurfi sjálfstæði ritstjórna. Það eigi að vera skylt að upplýsa hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma svo að almenningur geti vitað hverjir eigi fjölmiðil og lagt mat á hvort þar sé fylgt fram sjónarmiðum eigenda og setja þurfi eignarhaldi á fjölmiðlum hófleg mörk. Koma þurfi á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni. Flest þessi atriði koma fram í nýju frumvarpi um fjölmiðla. Það hefur nú svo sem verið gagnrýnt líka að fara eigi af stað með Fjölmiðlastofu en hún hefur þetta hlutverk m.a., að rækja eftirlit með því að fjölmiðlar sinni af ábyrgð hlutverki sínu í lýðræðisríki. Þar er líka kveðið á um ritstjórnarlegt sjálfstæði, að eignarhald verði upplýst og lagt til að farið verði í það að setja þverpólitískan hóp sem fari yfir takmarkanir á eignarhaldi.

Í skýrslunni er talað um háskólasamfélagið. Það er nokkuð sem við þurfum líka að taka til umræðu. Ég mun m.a. nýta næsta fund minn með rektorum íslenskra háskóla til að ræða þessar niðurstöður. Þar er m.a. rætt um þá hagsmunaárekstra sem geta falist í því að taka við styrkjum frá fyrirtækjum, kostunaraðilum, og vinna um leið að sjálfstæðum rannsóknum. Um þessa siðferðislegu klípu er fjallað í skýrslunni og ég held að það skipti miklu máli að ræða það opinskátt. Þó að fræðimenn þurfi ekki að láta kostunaraðila hafa áhrif á sig skapast auðvitað sú hætta nema skýrar siðareglur séu til staðar. Háskólar hafa tekið á þessu máli með ólíkum hætti. Ég held að það skipti miklu máli að draga það saman hvernig þeir hyggjast bregðast við þessari umræðu í skýrslunni.

Það er líka nefnt sérstaklega í skýrslunni að efla þurfi siðfræði eða menntun fagstétta á sviði viðskipta og hagfræði. Það tengist kannski þessari hugsun sem má ræða að við lifum í sérfræðingamiðuðu samfélagi. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri, það er alþjóðlegt. Það er lögð áhersla á sérfræðikunnáttu en ekki hina breiðu, fjölfræðilegu þekkingu sem áður tíðkaðist. Höfum við kannski gengið of langt í sérfræðiþekkingunni? Höfum við misst af undirstöðunni sem hver og einn einstaklingur þarf að hafa, sama hvaða starfi hann sinnir, til að mynda hina siðfræðilegu þekkingu? Um þetta er líka rætt almennt hvað varðar skólakerfið. Ég held að það skipti miklu máli, þar sem við skoðum það í nýjum námskrám hvernig við getum eflt lýðræðisvitund, siðfræðilega vitund, gagnrýna hugsun — hvernig ætlum við að innleiða þessar hugmyndir? Ég þykist vita að flestir hér inni séu sammála um að það skipti máli að efla þessar hugmyndir í skólum landsins. Við sáum að í umfjöllun þjóðfundarins um menntamál stendur það upp úr að fólk kallaði eftir aukinni umræðu, þjálfun, rökfærniþjálfun eða rökræðuþjálfun og hinni gagnrýnu hugsun. En við þurfum að ræða það hvernig við ætlum að innleiða breytingar því að námskrá er góð svo langt sem hún nær. En til þess að innleiða þær breytingar sem þar standa þarf að fylgja þeim eftir. Þannig að við þurfum að læra margt, draga marga lærdóma af þessari skýrslu.

Mig langar að nota tækifærið að lokum að vitna í þann ágæta fræðimann Vilhjálm Árnason sem stýrði þessari siðfræðinefnd. Hann skrifaði ágæta grein sem birtist m.a. í Broddflugum, safnriti hans. Greinin heitir „Í leit að lýðræði“, af því þetta snýst mikið um það. Öll umræðan um skýrsluna hefur að mörgu leyti snúist um það fyrirkomulag sem við búum við. Við getum sagt: Við búum vissulega við lýðræðisfyrirkomulag. En höfum við ræktað lýðræðishugsjónina?

Eins og Vilhjálmur bendir á er lýðræði tvískipt. Það er annars vegar það fyrirkomulag sem við höfum á okkar stjórnarfyrirkomulagi, sem vissulega er lýðræðislegt, en höfum við ræktað hugsjónina sem er hinn þátturinn í því að gera lýðræðið að veruleika? „Því lýðræðið“, og nú vitna ég beint í Vilhjálm, með leyfi forseta, „hefur þá tilhneigingu að þróast í einangrað og fjarlægt vald fárra, atvinnustjórnmálamanna og embættismanna, sem stjórnast oft af allt öðrum hagsmunum en þeim sem kenna má við almannaheill og þjóðarvilja. Vinnubrögð í slíku lýðræði verða því ólýðræðisleg.“

Því velti ég fyrir mér hvort sé ekki fyrst og fremst hlutverk okkar sem hér sitjum, eða a.m.k. eitt af lykilhlutverkum okkar, að rækta hugsjónina um lýðræðið, ekki síður en fyrirkomulagið, hugsjónina um samfélagið sem vettvang frjálsra einstaklinga og samtaka þeirra sem skapa sér sameiginleg lífsskilyrði í samræmi við þekkingu sína, þarfir og möguleika á hverjum tíma. En sá skilningur kallar á (Forseti hringir.) látlausa leit að betri leiðum til að tryggja sjálfræði þegnanna um sameiginleg mál sín. Lýðræðið má aldrei leggja að jöfnu við tiltekin ferli og stofnanir, skapandi stjórnmál í lýðræðisríki eiga stöðugt að snúast um að efla lýðræðið, virkja vilja einstaklinga til að móta líf sitt og menningu.

Ég biðst afsökunar á að fara fram yfir tímamörk.