138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Hann talaði um háskólasamfélagið, í ljós hefur komið að allt þetta unga fólk sem kom út úr háskólunum hefur ekki haft nægilega mikla — hvað á ég að segja? — samfélagskennd eða siðferði til að vega og meta hvað er rétt og hvað er rangt. Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Getur verið að háskólinn þurfi eins og Toyota að innkalla þessa gölluðu vöru þannig að þetta menntaða fólk fari í ákveðið siðfræðinám?

Ef ég tek dæmi. Þegar ég geng í Kringlunni er ég alltaf að hugsa um hvernig hitt fólkið gengur. Ég veð ekki beint áfram. Þetta heitir að taka tillit til annarra. Engar reglur eru um þetta. Það stendur hvergi í lögum eða reglum hvernig ég eigi að hegða mér í Kringlunni eða hvernig ég eigi að beygja svo ég velti ekki öllum um koll. Þetta geri ég alveg sjálfvirkt, þetta gera allir sjálfvirkt. En eitthvað virðist vanta upp á það að fyrirtækin sem störfuðu hér á Íslandi hafi tekið nægilega mikið tillit til umhverfisins. Eitthvað virðist vanta upp á menntunina. Menn virðast vera mjög góðir í því að reikna og meta áhættu og annað slíkt en ekki í þessu.

Svo vil ég benda á það að háskólasamfélagið þiggur gífurlega mikla styrki frá Evrópusambandinu og spurning hvort það hafi áhrif á aðild að Evrópusambandinu.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann tilheyrir nú Vinstri grænum. Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir nokkru, þetta er ekki grín, að það væri erfitt að stunda kattasmölun. Hvað var hæstv. forsætisráðherra að segja? Það er ekki nógu mikið flokksræði. Honum tekst ekki að beygja nógu marga ketti til að hlýða flokksaganum. Honum tókst að fá samþykkta aðildarumsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir að margir sem greiddu því atkvæði væru greinilega á móti því. Honum tókst einnig að samþykkja (Forseti hringir.) Icesave-samninginn.