138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru nokkrar spurningar. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal þessar spurningar.

Fyrst hvað varðar háskólasamfélagið þá efast ég um að hægt sé að innkalla prófin, ef svo má að orði komast, en hins vegar held ég að háskólasamfélagið verði að læra af þessu. Við höfum séð þróunina frá því sem var þegar allir tóku undirstöðuna í því sem var kallað heimspekileg forspjallsvísindi (PHB: Fílan.) eða fílan. Sú undirstaða hefur breyst. Að hluta til er það hluti af þeirri sérfræðivæðingu sem ég nefndi hér áðan, þ.e. fólk taldi sig ekki hafa þörf fyrir heimspekilega undirstöðu. Ég held að eitt af því sem við getum lært af þessari skýrslu sé að fólk hafi vissulega þörf fyrir slíka undirstöðu, þó ekki nema til að efla gagnrýna hugsun og siðferðisvitundina. Ég held hins vegar að það sé ekki nægilegt að við lærum þetta bara í háskólanum, við þurfum að læra þetta á fyrri stigum líka. Þar koma inn grunnskólarnir og leikskólarnir og framhaldsskólarnir, því þetta tengist náttúrlega öllu okkar daglega lífi.

Þó að fram hafi komið að mjög megi bæta lagaumhverfi um fjármálaumhverfi þá snýst vandinn líka um það að fólk hreinlega virti ekki lög og reglur og leit á þau sem hindranir sem væri sjálfsagt að reyna að finna leiðir fram hjá. Hvað segir það okkur um þetta samfélag?

Mér finnst þetta mál mjög alvarlegt, lagaramminn hefði þurft að vera skýrari og eftirlitsstofnanir öflugri til að sjá til þess að fólk fyndi þann lagaramma sem þó var og að ekki væri litið á þær sem óþolandi kvabb. Við þurfum líka að huga að þessu. Þetta tengist held ég almennri siðfræðikennslu langt niður úr.

Hvað varðar hins vegar styrkveitingar þá skiptir auðvitað máli á hvaða forsendum styrkir eru veittir. Þegar hv. þingmaður nefnir styrki frá Evrópusambandinu þá koma þeir yfirleitt úr rannsóknarsjóðum sem ekki er veitt úr á pólitískum forsendum eða af einstökum fyrirtækjum heldur (Forseti hringir.) samkvæmt jafningjamati. En ég kem nánar að því í seinna svari.