138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru örfá atriði í ágætri ræðu hæstv. menntamálaráðherra sem ég vildi staldra við.

Í fyrsta lagi vil ég velta því upp frekar en að spyrja, af því að ég las það úr orðum hæstv. menntamálaráðherra að hún hefði áhyggjur af því að það gæti skapað óeðlilega hagsmunaárekstra þegar háskóladeildir eða fræðimenn fá styrki frá fyrirtækjum. Ég hef velt því dálítið fyrir mér að undanförnu hvernig staðan er hjá óháðum fræðimönnum og hvort fræðimenn geta starfað óháð þegar þeir eiga hugsanlega mjög mikið undir viðamiklum störfum sem þeir vinna t.d. fyrir Stjórnarráðið. Við vitum að oft er leitað til háskólamanna til að vinna lagafrumvörp eða stýra nefndarstörfum eða annað þess háttar á vegum Stjórnarráðsins. Fyrir þetta fá þeir auðvitað borgað. Auðvitað er þetta yfirleitt þannig að verið er að leita eftir sérfræðiþekkingu þeirra. En hvaða áhrif hefur þetta á „óhæði“ þeirra, svo maður noti nú vont orð. Hvaða áhrif hefur það? Hefur það ekki sömu áhrif eins og þegar fyrirtæki styrkja fræðimenn, rannsóknir eða háskóladeildir?

Annað atriði sem ég vildi nefna vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra nefndi siðareglur fyrir Stjórnarráð og stjórnmálamenn og annað þess háttar. Ég held að í bönkunum hafi til dæmis ekkert vantað siðareglur. Þær voru til, fínar siðareglur og litu mjög fallega út. Bankarnir störfuðu eftir alls konar háleitum markmiðum um samfélagslega ábyrgð. Þetta var allt til á prenti. Það var ekki það sem vantaði. Það er ekki það sem vantar í Stjórnarráðið að sett séu einhver háleit markmið. Það er viljinn til að fara eftir slíkum reglum sem skiptir máli.