138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég grípi seinni ábendingu hv. þm. Birgis Ármannssonar um siðareglur, það er alveg rétt að siðareglur eru náttúrlega til lítils ef þær eru bara orðin tóm eða orð á blaði. Eitt af því sem vakti athygli mína er að rætt hefur verið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Einn af þeim lærdómum sem lesa má um í þessari siðferðisskýrslu er að það stendur mjög lítið eftir af þeirri meintu samfélagslegu ábyrgð sem bankarnir sýndu. Samfélagslega ábyrgðin fólst í fjarstyrkjum til einstakra góðgerðarfélaga, íþróttafélaga, menningarstarfsemi en hún beindist ekki að samfélaginu sjálfu og það er hluti af þeim vanda sem nú er við að etja. Hins vegar held ég að siðareglur byggi á því að um þær fari fram umræða. Þær snúast ekki um að einhver setji öðrum reglur eða festar séu reglur á blaði eða þær pantaðar hjá siðfræðingum úti í bæ (Gripið fram í.) heldur snúast þær um að um þær fari fram umræða. Það er t.d. eitt af því sem ég held að megi ræða af því að í skýrslunni kemur líka fram að bankarnir voru mjög öflugir við að styrkja nemendafélög framhaldsskólanna. Styrkjunum fylgdi þá jafnan að t.d. samhliða miðasölu á böll sætu fulltrúar bankanna og seldu nemendum kreditkort. Er ekki ástæða til að framhaldsskólarnir, og þá er ég að vísa í nemendur, kennara og skólameistara, ræði þetta? Ég er ekki viss um að það sé endilega hæstv. menntamálaráðherra á hverjum tíma eða þingið sem eigi að setja einhverjar reglur heldur er mikilvægt að skólarnir ræði þetta, taki þetta til umræðu og setji sér reglur. Þó að reglunum sé ekki fylgt skapa þær ákveðin viðmið og um þær þarf að fara fram umræða. Að því leyti er ég ekki sammála hv. þingmanni. Ég tel að reglur geti skipt máli ef undan fylgir umræða.

Hvað varðar hagsmunaárekstrana liggur það alveg fyrir og ég hef velt því fyrir mér: Þurfum við að gera skýrari skil milli háskólasamfélags annars vegar og hins vegar stjórnsýslunnar og fyrirtækjamarkaðarins? Ég tel að það sé eitt af því sem þurfi að ræða.