138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það að ég sé að böðlast yfir hv. þingmann með nokkrum yfirgangi. Til að mynda í þeirri umræðu sem ég fór með og snerist m.a. um fjölmiðla liggur fyrir að þar hefur farið fram umræða og liggur líka frammi frumvarp sem núna er til umræðu í hv. menntamálanefnd. Ég sé hreinlega ekki yfirganginn í því að ræða hlutina og setja þá í sinn eðlilega, þinglega farveg og það er það sem ég held að þessi ríkisstjórn hafi reynt að gera og ég held að það skipti miklu einmitt í umræðu um svona mál að við reynum að láta hvert annað njóta sannmælis fyrir það sem við þó erum að gera.

Hvað varðar reglur er það alveg rétt að hástemmd orð duga ekki til en ég minni á að hugsjónin er samt það sem skapar praxísinn. Lýðræðislegt fyrirkomulag hefur verið haft hér og við getum öll verið sammála um það. En höfum við haft þessa hugsjón um lýðræðið að leiðarljósi í öllum okkar verkum? Ég er ekki viss um það og það á vafalaust við um ýmislegt í stjórnarháttum sem má laga. En ég lít svo á að hvert og eitt okkar geti (Forseti hringir.) aukið þessa lýðræðislegu stjórnunarhætti með framgöngu og það þýðir ekki annað en við þurfum að taka umræðu um það hér á þingi.