138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. menntamálaráðherra og lýsi yfir ánægju minni með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en ég varð þó fyrir vonbrigðum þegar ég las einn undirkaflann í skýrslunni sem fjallar um þátt háskólasamfélagsins. Ástæðan er sú að fókus þess kafla er algerlega á Háskóla Íslands og lítið sem ekkert er fjallað um atvinnulífsskólana, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst sem lögðu sérstaka rækt við að afla fjár frá atvinnulífinu til þess að fjármagna m.a. innréttingar í kennslustofur, kennslunámskeið, kennslu starfsmanna lánastofnana við þessa háskóla og einstakar stöður í þessum skólum, svo ekki sé minnst á skýrslugerð um oft og tíðum þau sömu fyrirtæki sem veittu styrki.

Ég vil því hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að láta skoða nánar þá starfshætti sem viðgengust í þessum tveimur háskólum á útrásartímabilinu til að tryggja að þessir skólar læri af þeim mistökum sem voru gerð á þessu tímabili og jafnframt til að tryggja það að þessir skólar ásamt Háskóla Íslands veiti bestu menntun sem völ er á.