138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:38]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðu sem mér þótti mjög merkileg. Ef ég skil ræðuna rétt rekur hún verulegan hluta af ábyrgðinni á því hruni sem hér hefur orðið til þess að Alþingi hafi á vissan hátt brugðist, að Alþingi hafi misst eða látið úr höndum sér það vald og þar með þá skyldu sem því er lögð á herðar. Það hafi framselt vald sitt til framkvæmdarvalds sem að mínu áliti einkenndist á síðustu árum og kannski áratugum af foringjastjórnmálum, foringjadýrkun, og að sama skapi skorti á lýðræði og lýðræðislegri hugsun.

Sé sá skilningur minn réttur, að hv. þingmaður telji að Alþingi hafi glatað því frumkvæði sem það á að hafa við stjórn landsins tek ég eindregið undir hennar mál. Mig langaði bara til að spyrja aðeins nánar út í hvort minn veikburða skilningur sé réttur að þessu leyti.