138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið þykir mér rannsóknarskýrslan vera góð. Umfram allt er hún gagnleg, þrátt fyrir þær brotalamir sem á henni eru. Ég sakna margs í skýrslunni, ég vík að því síðar, og sumt í henni þykir mér orka tvímælis. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

Annars vegar hvað varðar Íbúðalánasjóð. Ég tel að hann og stjórnvöld á þeim tíma séu höfð fyrir rangri sök og ekki sé farið rétt með staðreyndir þegar sagt er að Íbúðalánasjóður hafi farið offari í útlánastefnu sinni. Þegar því var lýst yfir að stefnt væri að því að fara með lánveitingar úr Íbúðalánasjóði upp í 90%, sem var reyndar aldrei gert vegna þess að það var ætíð þak á útlánunum þannig að það voru aðeins ódýrustu íbúðirnar sem fóru upp í þær hæðir — það sem raunverulega gerðist á þessum tíma var að viðskiptabankarnir fóru í stríð við Íbúðalánasjóð, stefndu honum fyrir dómstól suður í Brussel en höfðu ekki árangur af sínu erfiði þar og brugðu þá á það ráð að reyna að kaffæra sjóðinn með grimmri útlánastefnu. Þar er að finna þensluvaldinn, ekki hjá Íbúðalánasjóði. Ég sakna þess að fulltrúar Íbúðalánasjóðs hafi ekki verið kallaðir fyrir nefndina til að gera grein fyrir afstöðu sinni og leiðrétta þennan misskilning sem er að finna í skýrslunni.

Hitt sem ég vildi nefna og snýr að álitamálum er spurning um vexti og hvernig skýrsluhöfundar draga taum hávaxtasinna en gera lítið úr rökum annarra, sumra sem ekki hafa hagfræðipróf upp á vasann en vildu hugsa á samfélagslega vísu, ekki síst þegar hávaxtatækið hafði sýnt sig að duga illa og alls ekki sem hagstjórnartæki við þær aðstæður sem við bjuggum við á þessum tíma. Þetta eru atriði sem mig langaði til að víkja að hér í upphafi.

Það er margt í þessari skýrslu sem ég sakna. Þá horfi ég til þeirra þingmála sem flutt voru hér á Alþingi og hefðu að öllum líkindum beint þróuninni inn á aðrar brautir ef þau hefðu verið tekin alvarlega. Ég lofa að vitna ekki í mörg gögn í þessari stuttu ræðu minni en mig langar til að vitna í örfáar setningar úr minnihlutaáliti sem ég skrifaði undir sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs árið 2001 við einkavæðingu bankanna. Ég hafði sagt að ég legði ekki að jöfnu einkavæðingu innan velferðarkerfisins og í fjármálakerfinu en í okkar litla hagkerfi væri mikilvægt að hér væri traust fjármálastofnun. Því til stuðnings sagði ég eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir að mikilvægt kann að vera fyrir íslenskt efnahagslíf að hafa öflugan þjóðbanka er að sporna gegn varasömum afleiðingum þeirrar miklu samþjöppunar á valdi og peningum sem stefnir í nú í íslensku efnahagslífi. Líklegt má heita að sömu aðilar og komist hafa yfir miklar eignir í atvinnulífinu nái einnig tökum á fjármálakerfinu. Hætt er við því að eignist þessir aðilar bankanna kæmu þeir til með að lána sjálfum sér fé úr hirslum þeirra og þar með væri boðið heim hættunni á misbeitingu þessara mikilvægu undirstöðustofnana í efnahagslífi þjóðarinnar.“

Í álitinu segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Í umræðunni um sölu á ríkisbönkunum er ítrekað haft á orði að ríkið eigi ekki að vera að rekast í því „sem einkaaðilar geta stundað“ og reyndar er gengið lengra og fullyrt að einstaklingar geti starfað á hagkvæmari máta en stofnanir sem lúta almannastjórn. Sagan sýnir á hinn bóginn að varasamt er að alhæfa í þessu efni. Hitt er þó vitað að þegar einkabankar hafa lent í kröggum eins og gerðist víða um lönd á 9. áratug síðustu aldar, t.d. í Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Noregi, hefur ríkið hlaupið undir bagga því að þar var það mat manna að ellegar hefði blasað við efnahagslegt hrun. Þannig veitti norska ríkið um 500 milljarða króna til að endurreisa banka sem höfðu verið einkavæddir en síðan hrunið. Sú spurning vaknaði í kjölfarið hvort ekki væri eðlilegt að fulltrúar þess almannavalds sem kemur til að stoðar á ögurstundu ættu rétt á að hafa einnig hönd í bagga þegar betur gengur.“

Þetta var í aðdraganda einkavæðingar á fjármálakerfinu. Ég vil vísa í fjölmörg þingmál sem hér voru flutt og hvergi er getið í skýrslunni. Ég vil nefna þingmál sem ég flutti um að auðvelda skattyfirvöldum innsæi inn í fjármálakerfið. Það fékkst ekki afgreitt. Ég vísa í umræður sem fram fóru um Seðlabanka Íslands, breytingar á lögum um hann árið 2000 en lögin tóku gildi 2001, þar sem varað var við því að þrengja verksvið Seðlabankans þannig að hann tæki ekki mið af samfélagslegum þáttum. Það var að sönnu hluti af þróun sem átti sér stað nánast alls staðar í heiminum, opnun og markaðsvæðing þessara kerfa. Á þessi rök var ekki hlustað. Ég nefni viðleitni stjórnvalda hér til að koma á skattaparadís á Íslandi. Það var ráðist í samstarfsverkefni Viðskiptaráðs, Verslunarráðsins, og ríkisstjórnarinnar upp á 50 milljónir til að finna leiðir til að örva þetta. Á þetta er ekkert minnst eða á tilraunir til að koma í veg fyrir þetta. Að ógleymdu hinu, sem kannski skiptir mestu máli, að oftsinnis fluttum við frumvörp um aðskilnað á viðskiptabönkum og fjárfestingarsjóðum. Síðast gerðum ég og hv. þm. Jón Bjarnason það haustið 2008, rétt áður en bankarnir hrundu. Það var síðasta skiptið sem við gerðum það og færðum rök fyrir því sem er mjög til umfjöllunar í þessari skýrslu.

Hvernig stendur á því að skýrsluhöfundar vitna ekki til þess sem reynt var að gera á Alþingi? Kem ég þá að því sem snýr að stjórnvöldum og andvaraleysinu þar og þeirri fullyrðingu sem ég tel vera rétta, að rökræðan hafi hopað fyrir hanaslagnum. Það er sagt í skýrslunni. En er þetta alveg rétt? Voru rökin ekki reidd fram? Jú, þau voru reidd fram, þau voru sett fram í ítarlegu máli í greinargerðum en það var ekki hlustað. Þar kem ég að ábyrgð fjölmiðla og ábyrgð stjórnvalda vegna þess að þegar samþykktar eru grundvallarbreytingar sem snúa að samfélagi okkar á að vera erfitt að fá þær í gegn. Það á að vera erfitt, menn eiga að þurfa að svitna yfir Kárahnjúkum, einkavæðingu bankanna, einkavæðingu Landssímans og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Menn eiga að þurfa að svitna og sönnunarbyrðin á að hvíla hjá þeim sem breytir en ekki hinum sem gagnrýna. Hvað gerðist hér í þessum sal þegar ráðist var í þessar grundvallarbreytingar á okkar samfélagi? Menn gengu út.

Ég man eftir einu litlu dæmi. Ég hafði talað nánast alla nóttina um einkavæðingu á rafmagnseftirlitinu, frá fjögur til klukkan sjö. Það var komið með miða til mín hingað í ræðustólinn og sagt: Ríkisútvarpið vill ná tali af þér. Ég lauk máli mínu glaður í hjarta, kannski var ég að ná í gegn inn í fjölmiðlana. Ég fór í símann og þar var spurt: Ertu ekki þreyttur? Andvaraleysi. Andvaraleysi í fjölmiðlum, andvaraleysi í þessum sal. Þessu þurfum við að breyta, foringjaræðinu, hjarðmennskunni. Við eigum að spyrja: Hvað hefur breyst núna? Er leyndarhyggjan e.t.v. enn þá á sveimi í samskiptum við AGS? Við höfum rætt um Icesave-samningana og við höfum rætt um aðra þætti. Það sem er gott við þessa skýrslu er að hún er umræðugrundvöllur til þess að breyta vinnulagi í íslenskum stjórnmálum. Það vinnulag og sú umræða þarf að taka til fjölmiðlanna, hún þarf að taka til þjóðfélagsins alls og við eigum að sýna í verkum okkar, ekki bara í tali, ekki bara í orðum, heldur eigum við að sýna í verkum (Forseti hringir.) okkar að þar hafi orðið breyting á.