138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:59]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að stytta mér leið vil ég reyna að svara þessum spurningum um framtíðina með tilvísun til nútíðarinnar og þá fyrst um einkavæðingu bankanna. Þetta var og er eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að koma hér öllu lifandi og dauðu á markað eins og við þekkjum og þar með fjármálastofnunum. Það er að finna í þeirra gögnum. Á hitt er einnig að líta að fjármálakerfið, hið hrunda fjármálakerfi á Íslandi, var skuldsett upp á stjarnfræðilegar tölur. Menn hafa talað um 9.000, 10.000, 11.000, 12.000 milljarða. Þessir bankar voru að sjálfsögðu löngu komnir úr íslenskri eign. Kröfuhafarnir voru búnir að læsa klóm sínum í þá.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér þarf að vera almannabanki. Það eru reyndar mín orð en ekki hans. Varðandi eignarhaldið — af því að ég man skyndilega hver það er sem ég á orðastað við, hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur ekki verið sérstaklega gefinn fyrir þjóðbanka — en varðandi eignarhaldið tek ég undir með honum að það þarf að vera skýrt. Okkur hefur ekki tekist að tryggja það en það verðum við að gera. Sú krafa hlýtur að hvíla á okkur að við upplýsum um eignarhaldið og breytum lögum í þá veru að það verði upplýst. Undir það tek ég heils hugar.

Varðandi framtíðina almennt þurfum við að opna alla glugga. Við viljum hafa opið, gagnsætt þjóðfélag. Hvað varðar fjármálakerfið hefur reynslan sýnt að samfélagið er ábyrgt fyrir því, þó að það hafi verið svipt öllum völdum yfir því, en það á að sjálfsögðu þá kröfu að hafa innsýn í það sem þar gerist.