138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess þá að hv. þingmaður beiti áhrifum sínum í sínum þingflokki og spyrji yfir borðið: Hver á bankana? Það er hæstv. fjármálaráðherra sem fer með það og veit það, eða ætti að vita það, og viðskiptaráðherra sem er reyndar ekki í neinum flokki. Hann gæti beitt áhrifum sínum til að fá að vita hverjir eiga bankana.

Varðandi þjóðbanka og ekki þjóðbanka. Það vill svo til að Landsbankinn er þjóðbanki. Af hverju? Vegna þess að Bretar og Hollendingar eiga stærstu kröfuna á hann og eiginlega einu kröfurnar fyrir utan Íslendinga. Allir aðrir kröfuhafar misstu sinn rétt út af Icesave og Bretar og Hollendingar hafa ekki mikinn áhuga á að eiga banka á Íslandi. Hann er nauðugur viljugur í eigu ríkisins af því að það vill í rauninni enginn annar eiga hann. Það er ekki þar með sagt að menn gætu ekki selt hann nákvæmlega eins og hina. Ég sting upp á því við hv. þingmann að hann skoði þann möguleika að selja Landsbankann líka þannig að við séum með þrjá einkabanka á Íslandi aftur.