138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður mælti nokkur vel valin orð til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sagði að hann vildi einkavæða allt kvikt og dautt. Af því tilefni vildi ég leyfa mér þann munað að minna hv. þingmann á að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir nýtur stuðnings tveggja stjórnarflokka.

Það var þó ekki tilgangur minn með því að koma hingað upp. Ég vildi þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja að hann reyndist að mörgu leyti framsýnni mjög mörgum. Ég minnist þess að hv. þingmaður olli uppnámi í þessum sölum þegar hann sagði að ef bankarnir yrðu of stórir ætti að flytja þá úr landi. Fyrir það var hann hæddur og spottaður af tveimur eða þremur flokkum. Það mætti kannski segja í dag að menn hefðu betur farið að þeim orðum sem hv. þingmaður lét þá flakka.

Hv. þingmaður sagði að hann væri að mörgu leyti ánægður með þessa skýrslu en sagði þó tvennt sem ég rak hnýflana í. Annars vegar sagði hann að það væru brotalamir á skýrslunni og hins vegar að ýmislegt þar orkaði tvímælis. Hv. þingmaður skýrði að hluta til út hverjar brotalamirnar væru. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmann til að segja mér hvað honum finnst orka tvímælis í þessari skýrslu. Ef hv. þingmaður hefur tíma til hefði ég gaman af því að spyrja hann hvað af því sem gerst hefur á síðustu 10–12 árum sé líklegast til að hafa haft mest áhrif á þá stöðu sem við erum í núna. Hvaða einstaka stjórnvaldsákvörðun telur hann að hafi hugsanlega valdið því mikla tjóni sem við erum núna að reyna að bæta?