138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:13]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar um bankahrunið er að líkindum sú mikilvægasta sem unnin hefur verið í sögu lýðveldisins. Meginniðurstaða hennar er sú að við þurfum endurmat, við þurfum endurskoðun og við þurfum kjark til að gangast við þeirri staðreynd að skortur á fagmennsku, fúsk og flumbrugangur hefur á seinni tímum einkennt íslenskt þjóðlíf í allt of miklum mæli. Aðdragandinn er rammpólitískur. Aðdragandinn snýst um hugmyndafræði og sýn í stjórnmálum, hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir að rýra beri ríkið, rýra beri almannavaldið með öllum tiltækum ráðum og auka frelsi frekjunnar og fjármagnsins á kostnað frelsis fólksins, einstaklinganna, gagnstætt því sem látið var í veðri vaka. Fortakslaus einstaklingshyggja sem endurspeglaðist í fyrirlitningu á náttúrugæðum, samfélagseigum og almannahagsmunum og því hvernig gengið var um þau verðmæti og trúarbragðakennd afstaða til markaðarins og frelsisins réðu för. Predikað var í bókum, blaðagreinum, leiðurum og úr ræðustóli þingsins. Íslenska Framsókn sneri bakinu við samvinnuhugsjón og félagshyggju og íslenskir jafnaðarmenn, fyrst Alþýðuflokkurinn og síðar Samfylkingin, urðu samferða evrópskum jafnaðarmönnum sumum hverjum í þjónkun við markaðs- og peningahyggju. Hægrið varð norm.

Ástand samfélagsins var nánast vímukennt og það mátti ekkert segja. Það mátti ekki benda á augljósa hluti. Það átti ekkert að segja. Þessi hugmyndafræði, þessi víma, þessi fyrirlitning á samfélagi, almannavaldinu, ríkinu og heildarhagsmunum leiddi okkur af leið. Virðulegi forseti. Fólk vildi ekki hlusta. Séð og heyrt-væðingin, forsetinn, útrásarglamrið lék um allt samfélagið. Ungu mennirnir með kaupréttinn voru hetjurnar og allt var til sölu. Auðvaldið gamalt og nýtt kraumaði undir, völdin og rétturinn lágu í peningunum. Sjálfstæðisflokkurinn var í fararbroddi, bæði ljóst og leynt, peningavaldið og auðhyggjan gegnsýrðu allt samfélagið, pólitíkina, viðskiptalífið og fjölmiðlana. Þessi öfl eru enn að verki en hafa lent í kreppu og leita allra leiða aftur að valdinu, hvar sem því verður fyrir komið. Birtingarmynd af þessu er hvernig Morgunblaðið og formenn Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi og núverandi, reyna að vísa ábyrgðinni frá sér og sínum liðsmönnum í aðrar áttir. Valdabröltið birtist líka í orku- og stóriðjumálunum. Munum hvernig opnað var á einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Munum hverjir voru þar að verki og hvernig dansinn dunaði í fyrirætlunum um REI. Samfélagssáttmálinn rofnaði smám saman. Hagsmunir almennings voru fótumtroðnir og í raun má segja að það hafi molnað undan samfélagsbyggingunni allri. Traustið lét undan og lögmál samkeppni og einstaklingshyggju tóku yfir á kostnað samkenndar og samstöðu. Sjálftakan var dyggð.

Frú forseti. Allir þurfa að líta í eigin barm og lesa skýrsluna með sóknarfæri og endurbætur að leiðarljósi. Við þurfum að styrkja þingið sem löggjafarsamkomu og efla eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn þurfa að gangast undir endurmat og ekki síður forsetaembættið. Siðareglur þarf að setja um starfshætti forseta með hliðsjón af því hvernig það embætti hefur þróast. Vigdís Finnbogadóttir stendur á gleðilegum tímamótum í þessari viku og það vekur okkur til umhugsunar um það hvaða breytingum embættið hefur tekið frá því að hún lauk sínum farsæla forsetaferli. Sú nefnd sem fjallaði sérstaklega um siðferðileg álitamál dregur fram hvernig forseti Íslands vék af braut forvera sinna með því að taka virkan þátt í yfirlæti og sýndarmennsku auðmanna sem, þegar allt kom til alls, skorti alla innstæðu fyrir upphefðinni.

Stjórnsýsluna og stjórnmálin þarf líka að skoða. Orð Páls Hreinssonar í sjónvarpinu á mánudaginn eru sláandi en hann segir: „Stjórnarráð síðustu aldar dugar okkur ekki inn í nýja öld.“ Það er Geir Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, til minnkunar hvernig hann gerir lítið úr þeim sjónarmiðum sem fram koma að því er varðar mikilvægi þess að endurbætur eigi sér stað í stjórnsýslunni, aukning á formfestu og gagnsæi. Í stjórnsýslunni þarf gagngerar endurbætur, bætta formfestu, skýrari verkferla og að tryggt sé að unnt sé að rekja ákvarðanir, hvernig þær voru teknar og á hvaða forsendum. Við eigum að stefna að því að íslensk stjórnsýsla verði eins aðgengileg og lýðræðisleg og nokkur er kostur. Stjórnsýslan og embættismennirnir, kjörnir fulltrúar og pólitíkin öll, eru þjónar almennings, sitja í umboði hans og eiga að gæta hagsmuna heildarinnar í hvívetna. Ríkið er ekkert annað en félag okkar allra um heilbrigt og gott samfélag. Þetta umboð þurfum við að umgangast af auðmýkt og virðingu.

Kjörnum fulltrúum og stjórnsýslunni er búið aðhald m.a. í stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Neikvæð viðhorf til stjórnsýslulaganna ríktu á tímum græðgi og hömluleysis. Lögin voru jafnvel talin flækja mál og tefja þau. Stjórnmálamenn umgengust stjórnsýsluna með svipuðum hætti og bankarnir regluverðina. Stjórnsýslulögin eru sett fyrst og fremst til að tryggja réttarstöðu borgaranna í viðskiptum sínum við þá sem fara með opinbert vald, þ.e. stjórnvöld. Þau eru ekki sett til að skapa okkur kjörnum fulltrúum þægilegt starfsumhverfi. Skýrslan sýnir að stjórnsýslunni er ábótavant og hana þarf að bæta. Núna höfum við tækifæri til þess. Aldrei er mikilvægara en nú að skerpa línurnar, vinna að lýðræðisumbótum og gagnsæi í stjórnkerfinu. Kjörnum fulltrúum er treyst til að gæta hagsmuna almennings, þjóna almenningi.

Það er sérstök ástæða til að þakka rannsóknarnefnd Alþingis fyrir afar fagleg og yfirveguð vinnubrögð. Vinna nefndarinnar er afrek á hvaða mælikvarða sem er og okkur öllum til sóma, trúverðug, vönduð, aðgengileg og ekki síst á mannamáli. Það er líka ástæða til að þakka Ríkisútvarpinu fyrir sína fyrstu umfjöllun um skýrsluna, kannski verður 12. apríl fyrsti dagurinn í raunverulegri endurreisn landsins. Við sjáum svart á hvítu hvað gerðist en ekki síður fáum við leiðbeiningu um það hvernig við getum bætt ráð okkar. Það er gríðarlega mikilvægt að nýta skýrsluna sem tæki til að byggja upp betra og lýðræðislegra samfélag. Alþingi hefur markað mjög mikilvæg spor í sína sögu með því að stofna til nefndarinnar og setja lög um hlutverk hennar og markmið. Þjóðþingið hefur tækifæri til að reisa sig og taka skýrsluna til málefnalegrar og öflugrar úrvinnslu.

Frú forseti. Hvaða leiðir notum við til að mæla heilbrigt samfélag? Við þurfum aðra mælikvarða, aðra hagvísa til að mæla lífsgæði og heilbrigði samfélagsins. Skýrslan fjallar ekki sérstaklega um þessa staðreynd en sífellt fleiri þjóðir eru að átta sig á því að hagstjórn sem byggir á vexti án sjálfbærni er feigðarflan. Þar þarf að huga að menningu og samfélagsverðmætum en ekki síður þeim verðmætum sem náttúran leggur okkur til og geta verið grundvöllur velferðar um ókomna framtíð ef um þær er gengið af hófsemd og virðingu.

Virðulegi forseti. Í samfélaginu finn ég fyrir tilteknum létti við þessi tímamót, kannski fyrst og fremst vegna þeirrar fullvissu að núna loksins hafi verið vel unnið. Svona viljum við hafa Ísland. Við viljum að eftir okkur liggi skýr og aðgengileg verk. Við viljum gagnsæi og ábyrgð, við viljum að kjörnir fulltrúar sinni verkum sínum af trúmennsku gagnvart sínu umboði og í því efni þarf þingheimur allur að líta í eigin barm. Þegar hefur verið tekið á mörgum þeim úrlausnarefnum sem fram koma í skýrslunni, til að mynda á sviði efnahags- og umhverfismála, fjölmiðlaumhverfisins og fjölmargra annarra þátta. Að mörgu leyti hafa undanfarnir mánuðir og missiri einkennst af rústabjörgun og bráðaaðgerðum. Því verki er engan veginn lokið en skýrslan markar samt nýtt upphaf. Hún markar þáttaskil. Sérstaka athygli vekur umræðan um stjórnskipulega og lagalega ábyrgð annars vegar og pólitíska ábyrgð hins vegar. Það hlýtur að vera eitt meginhlutverk kjósenda á öllum tímum að halda slíkri ábyrgð til haga og tryggja að hún endurspeglist í því uppgjöri sem kosningar eiga að vera. Örfáar vikur eru í næstu kosningar og þar fá kjósendur dýrmætt tækifæri til að bregðast við þeirri mynd sem nú blasir við í kjölfar skýrslunnar.

Virðulegi forseti. Mig langar í fullri einlægni að biðja alla sem eiga þess kost að líta í eigin barm í kjölfar þessarar skýrslu, alla kjörna fulltrúa, alla ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fjölmiðlamenn, háskólana, viðskiptalífið, þá sem hafa áhrif á opinbera umræðu og almenning allan. Við verðum beinlínis að nýta þetta stórkostlega tækifæri, þessi merku þáttaskil, til gæfu fyrir þjóðina alla og hefur þingnefndin undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar þar mikilvægu hlutverki að gegna. Við getum borið höfuðið hátt. Við eigum stórkostlega náttúru. Við eigum mikinn mannauð. Við eigum ráðagott fólk á öllum aldri um allt land. Við verðum öll að temja okkur að leggja við hlustir með velferð og hagsmuni komandi kynslóðar að leiðarljósi. Við getum það ef við berum gæfu til þess að vera auðmjúk og bjartsýn. Öll.