138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:25]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir andsvar hennar. Ég vék að því sérstaklega í ræðu minni að rótanna væri að leita í stjórnmálum, í pólitík. Það var pólitísk kennisetning sem boðin var fram kosningar eftir kosningar sem var grundvöllur einkavæðingar bankanna og þeirra viðhorfa og sýnar sem þar réðu ríkjum og urðu síðan grundvöllur hrunsins. Mér fyndist vera bragur á því að sjálfstæðismenn segðu það bara. Mér finnst eins og sjálfstæðismenn fjalli um þessi mál rétt eins og að foreldrar beri ekki ábyrgð á því þegar börnin fara sér að voða út af leikföngum sem eru þeim hættuleg. Regluverkið, utanumhaldið, forsendurnar, allt var þetta gert á hinu pólitíska borði. Sjálfstæðisflokkurinn bauð ítrekað fram þau sjónarmið, þær hugsjónir og þessa sýn í kosningum, hann gerði það.

Varðandi orð þingmannsins í lok andsvars síns um lærdóma í núinu en ekki bara í fortíðinni og framtíðinni, er ég sammála henni um það að við eigum að leitast við að opna alla ferla. Við eigum að leitast við að opna eins og við getum samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við eigum að leitast við að sinna trausti þar sem það er til staðar og byggja það upp þar sem það er ekki fyrir hendi.