138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ein mínúta er stuttur tími og ég virði þingmanninum það til vorkunnar í lokin á andsvari sínu þegar hún kláraði ekki setningu sína varðandi það að einhver væri að banna allt mögulegt. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað hv. þingmaður átti við í þeim efnum og við getum væntanlega átt orðastað um það sérstaklega við annað tækifæri og betra.

Ég er sammála þingmanninum um að frelsi skiptir máli, ég er sammála þingmanninum um það að frelsið skiptir gríðarlega miklu. En ég er þeirrar skoðunar að frelsi snúist um frelsi í félagi, frelsi sem ber í sér virðingu fyrir sínum meðbræðrum og -systrum og fyrir samfélagi sínu, ekki frelsi frekjunnar, frelsi yfirgangsins og frelsi þeirra sem eiga, geta og heimta. Það frelsi vil ég ekki.