138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:34]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þau þáttaskil sem skýrslan gefur tilefni til stöndum við hér, þingheimur, á tímamótum og við eigum að nýta þau tímamót. Óvenjulega mikil endurnýjun hefur orðið hér í þingsölum og það hefur, held ég, valdið okkur öllum ákveðnum vonbrigðum, ef við horfum í eigin barm, hve umræðan hefur verið hefðbundin, átakamiðuð og í skotgröfum.

Ég held því að við eigum öll að nýta nákvæmlega þetta tækifæri til þess að slá striki yfir þá umræðuhefð sem á sér rætur í valdapólitík þar sem meiri hlutinn drottnar yfir minni hlutanum og þar sem þeir sem tilheyra minni hlutanum hafa nánast ekki málfrelsi og tillögurétt. Þingið hefur nú tækifæri til þess að spyrna frá botni, liggur mér við að segja, og halda stolt á þessari flottu skýrslu í sókn til þess að endurmeta og endurmóta meðal annars stöðu framkvæmdarvaldsins.