138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:37]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrri spurningin varðaði stöðu öryrkja, hv. þingmaður segir að það snúist um einstaklingshyggju að öryrkjar geti notið tekna sinna óháð stöðu maka. Í mínum augum snýst þetta um réttinn til að lifa með reisn, sem sýnir okkur kannski að við nýtum hugmyndakerfi okkar og orðfæri eftir því hvaðan við komum úr stjórnmálum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og þeirrar sannfæringar að samfélagið sé sem betur fer að leiðréttast frá því sem ég ræddi hér í ræðu minni áðan, hægrið var orðið norm og það gilti um miðjuflokkana líka. Þeir fóru að stíga allt of þungt í hægri fótinn og ég held að við finnum það öll sem hér erum.

Varðandi Evrópusambandið — og ég þakka þingmanninum fyrir að fara með mína ógleymanlegu atkvæðaskýringu þar — er ég þeirrar skoðunar, og það snýst ekkert um flokksaga í sjálfu sér, að það sé skynsamlegt að gefa þjóðinni möguleika á því að taka afstöðu til samnings um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvæg lýðræðisleg spurning sem almenningur á Íslandi eigi að fá að svara og sé tímabært að hann fái að svara. Þess vegna sagði ég já.

Ég er jafnmikið þeirrar skoðunar að það sé vond hugmynd að ganga í Evrópusambandið og sennilega verri hugmynd nú en oft áður. En varðandi umræðuna almennt um flokksaga — og ég hef orðið þess áskynja að þingmaðurinn hefur mikinn áhuga á þeirri umræðu, sem ég held að þyrfti meiri tíma hér — þá skulum ekki gleyma því að flokkur er hópur fólks sem sameinast um tiltekin sjónarmið og tilteknar hugmyndir. Flokkar hafa þann háttinn á að finna sér oft og einatt sínar leiðir til þess að koma þeim hugmyndum og þeirri skoðun (Forseti hringir.) áleiðis í gegnum meirihlutaákvarðanir í viðkomandi flokki. Mér finnst því svolítið á skjön við lýðræðishugsun að tala um að það snúist um einhverjar múlbindingar.