138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum hér rétt að hefja umræðu um tímamótaverk sem er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins hér á landi. Þingmenn, sem velflestir hafa komið hingað upp, hafa fjallað um þetta merka rit af auðmýkt. Okkur hefur gefist mjög takmarkaður tími til að fara yfir þetta umfangsmikla verk og vonandi munum við halda áfram hér á vettvangi þingsins í þessum sal að ræða um það sem hefur gerst í íslensku samfélagi á undangengnum árum.

Þessi skýrsla er í fljótu bragði áfellisdómur yfir ráðherrum í ríkisstjórn, mörgum ríkisstjórnum, er áfellisdómur yfir störfum alþingismanna, er áfellisdómur yfir störfum Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins, íslenskra fjölmiðla og háskólasamfélagsins svo að fátt eitt sé nefnt. Innviðir íslensks samfélags hafa greinilega brugðist og það þurfa allir að líta í eigin barm, að við tölum ekki um þá aðila sem stýrðu fjármálastofnunum og stærstu fyrirtækjum íslensks samfélags á undangengnum árum, lýsingar á starfsháttum þeirra eru beinlínis ótrúlegar. Ég skal alveg viðurkenna það að þegar ég les um þau vinnubrögð fyllist ég reiði. Og ég er reiður. Og það eru margir sem eru reiðir yfir því hvernig fyrir okkur er komið og hvernig menn hafa hagað störfum sínum í íslensku samfélagi á undangengnum árum.

Þingmannanefndarinnar, sem á að fara yfir þessa skýrslu, bíður erfitt verk, umfangsmikið, og það er mikilvægt að reiðin verði ekki í forgangi í þeirri vinnu heldur að farið verði af yfirvegun yfir þetta mál, hvernig stóð á því að þetta gerðist allt saman og síðast en ekki síst hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt samfélag á komandi árum. Atburðir sem þessir mega einfaldlega ekki endurtaka sig og ég óska þeim alþingismönnum sem eru í þessari mikilvægu nefnd góðs gengis í erfiðu viðfangsefni.

Það er líka eðlilegt að við spyrjum okkur að því, í ljósi þessarar skýrslu, á þeim litla tíma sem við höfum fengið til þess að lesa yfir hana, hvað hafi breyst. Hvað hefur breyst til að mynda hér á vettvangi þingsins, sem er harðlega gagnrýnt í þessari skýrslu? Sérstaklega er bent á foringjaræðið í þessari skýrslu, hvernig það hefur einkennt íslensk stjórnmál á undangengnum árum. Nú skulum við spyrja okkur að því, þingmenn: Hefur það eitthvað breyst? Nei, því miður horfum við upp á sömu gömlu vinnubrögðin á þessum vettvangi líkt og þau voru fyrir hrun, sem var ein af orsökunum fyrir því hvernig fyrir okkur er komið. Við þurfum öll að líta í eigin barm og þessu þurfum við að breyta, sama hvar í flokki við stöndum.

Þingmannanefndin þarf líka að skoða sérstaklega stöðu þingsins. Eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt, það brást. Við verðum að beita okkur fyrir því að Alþingi og þingmenn hafi aðstöðu til þess að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald, að hlutverk stjórnarandstöðunnar verði bætt hér í þingi. Stjórnarandstaðan gegnir mjög mikilvægu hlutverki og færa má fyrir því rök að stjórnarandstaðan hafi á undangengnum árum brugðist í aðhaldshlutverki sínu gagnvart viðkomandi valdhöfum. Hvernig stendur að því að stjórnarandstaðan hefur enga aðkomu að forustustörfum í nefndum þingsins, sem eiga að veita framkvæmdarvaldinu aðhald? Hvernig stendur á því að 34 manna meiri hluti hér í þinginu, gegn 29, skuli hafa alla formennsku og öll völd hér í þinginu? Þetta er ekkert lýðræði. Þetta er hugsun, þetta er villa í hugsun, eitthvað sem við þurfum að breyta að mínu viti.

Við þurfum líka að átta okkur á því hvert við stefnum. Færa má fyrir því rök að á sínum tíma, allt frá árinu 2003, hafi stjórnmálin færst fullmikið til hægri. Eftir á að hyggja er mér ljúft og skylt að játa það að þær skattalækkunartillögur sem þá var ráðist í voru einfaldlega of miklar á tímum mikillar þenslu, og ég játa það. Að sama skapi skulum við þá nota þá röksemd að á krepputímum megum við heldur ekki hækka skattana í þeim mæli að það komi atvinnulífinu í landinu og heimilunum mjög illa. Það er þessi gullni meðalvegur sem gildir. Þó að við höfum farið út af veginum hægra megin skulum við passa okkur á því að keyra ekki lóðbeint vinstra megin út af honum aftur í átt að endurreisninni. Það þarf raunsæishugmyndafræði. Við þurfum að hafna þeim öfgum sem sagan hefur sýnt okkur að ganga einfaldlega ekki upp.

Framsóknarflokkurinn hefur farið mjög ítarlega yfir sín mál á undangengnum árum og hann hafnar því ekki heldur samþykkir það að hann ber að hluta til ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja það hér vegna þess að fjölmargir aðilar bera ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Það sem þessir aðilar þurfa að gera er að líta í eigin barm, endurmeta sjálfa sig og horfa til framtíðar. Það höfum við á vettvangi Framsóknarflokksins gert allt frá því að við komum saman á flokksþingi okkar, eitt þúsund manns, fyrir rúmu ári. Það er mannlegt að gera mistök og menn skulu einfaldlega viðurkenna að það er margt í fortíðinni sem betur hefði mátt fara.

Mig langar líka í örstuttu máli að koma Íbúðalánasjóði til varnar í þeirri umræðu sem verið hefur uppi um það að svokölluð 90% lán þess sjóðs hafi sett samfélagið á annan endann. Staðreyndin er sú að árið 2004 var samþykkt löggjöf á Alþingi um að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í áföngum í allt að 90% af hóflegu verði íbúðar, sem reyndar var tengt við brunabótamat. Í þeirri umræðu sem þá átti sér stað kvöddu sér hljóðs hæstv. núverandi forsætisráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra og hvöttu til þess að gengið yrði lengra í þeim lánveitingum, að svigrúm Íbúðalánasjóðs yrði aukið og að 90% húsnæðislán til þeirra sem væru að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti yrði innleitt hið fyrsta. Það var fellt vegna þess að við sögðum: Það þarf að taka tillit til aðstæðna í íslensku efnahagslífi því að ef þenslan hefði verið það mikil hefðum við aldrei farið í það að hækka þetta prósentuhlutfall upp í 90%.

Hvað gerðist svo? Menn skulu ekkert gleyma því að áður en lögin tóku gildi kom stærsti einkabankinn inn á þennan markað og bauð lán á niðurgreiddum vöxtum, lán sem bankinn borgaði með, 100% lán, sem var ekki tengt neinu brunabótamati. Fólk þurfti ekki einu sinni að skulda neitt í sínu húsnæði. Það gat fengið 50 millj. kr. lán þó að það skuldaði ekki neitt gegn veði í húsnæði sínu. Það gat keypt sér sumarbústað, það gat keypt sér nýjan bíl og þar fram eftir götunum.

Hvað áttu stjórnmálamenn að gera þá sem vildu standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs? Átti að gera ekki neitt og láta lánshlutfall Íbúðalánasjóðs áfram vera 70% þannig að þessi mikilvæga stofnun yrði ekki samkeppnisfær og yrði lokað innan örfárra missira? Við framsóknarmenn sögðum nei við því. Og þó að ég hafi endurmetið margt í kjölfar hrunsins er afstaða mín gagnvart Íbúðalánasjóði og því samfélagslega hlutverki sem hann gegnir óbreytt. Við skulum ekki gleyma þeim röddum sem sögðu á Íslandi á þessum tímum að færa ætti íbúðalán Íbúðalánasjóðs yfir til bankanna, hann væri óþarfur. Ég hef ekki breytt um afstöðu í þessu og menn skulu ekki gleyma því í umræðunni að það var stærsti einkabankinn sem ruddist inn á þennan markað á niðurgreiddum vöxtum, hann borgaði með lánunum. Svo eru menn hissa á því hvernig fyrir þessum stofnunum er komið í dag.

Það gefst lítill tími, einungis tíu mínútur, til þess að ræða um þetta umfangsmikla verk og lítill tími hefur gefist til þess að lesa það. Ég fer fram á það, frú forseti, að innan nokkurra vikna fari önnur umræða um þessa skýrslu fram hér í þinginu. Hún þarf að vera opin og gegnsæ og fólk þarf að hlusta á skoðanaskipti okkar hér, það má ekki loka umræðuna inni í einhverjum nefndum. (Forseti hringir.) Tíu mínútur til þess að ræða um svona umfangsmikið mál er allt of skammur tími og tveir dagar til þess að lesa 2.300 bls. er einfaldlega allt of skammur tími. (Forseti hringir.) Það er krafa mín og margra annarra þingmanna að við fáum betri tíma og betra tóm (Forseti hringir.) til þess að ræða þetta tímamótaverk.