138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu, mér fannst hún karlmannleg. Hv. þingmaður sagði í fyrsta lagi að það væru margar ríkisstjórnir sem fengju áfellisdóm með þessari skýrslu. Ég ætla nú ekki að spyrja hann um hvaða ríkisstjórnir það eru. Mér fannst það mjög drenglynt hjá honum og í anda þeirrar nálgunar sem ég tel að við eigum að hafa í umræðum um þessa skýrslu, að hv. þingmaður, sem er varaformaður Framsóknarflokksins, sagði það undanbragðalaust að Framsóknarflokkurinn bæri að hluta til ábyrgð á þeirri þróun sem leiddi til þeirrar stöðu sem við erum núna í. Mér finnst rétt að menn nálgist þetta með þessum hætti og vil þakka hv. þingmanni fyrir það.

Mig langar að spyrja hann út í eitt atriði sem er einkavæðing bankanna. Ég er þeirrar skoðunar að einkavæðing bankanna eins og að henni var staðið sé frumorsök þessarar þróunar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér og formanni Sjálfstæðisflokksins sammála um að sú stefnubreyting sem varð á síðasta metranum í aðdraganda lagasetningar um einkavæðingu bankanna, þegar horfið var frá dreifðri eignaraðild til þeirrar stefnu að selja stóra hluta í bönkunum, séu í raun hin stóru mistök á fyrsta skeiði þessarar þróunar.