138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:00]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans. Sérstaklega langar mig til að gera að umtalsefni það sem hann kom inn á í sambandi við vinnubrögðin í þinginu og ég held að það sé óhjákvæmilegt að þingið ræði þessa skýrslu frekar, taki sér einmitt ákveðið hlé núna en taki þetta mál upp aftur. Eitt af því sem er ekki síst mikilvægt að ræða í framhaldi af skýrslunni eru einmitt vinnubrögð okkar á þessum vinnustað.

Ég er ekki alveg viss um að bætt vinnubrögð felist endilega í því að stjórnarandstaðan fái aðkomu að formennsku í nefndum. Það segi ég ekki vegna þess að ég vilji ekki hleypa henni að sem stefnumótandi afli. Stjórnarandstaða á hverjum tíma hefur auðvitað mikilvægu hlutverki að gegna en veldur hver á heldur. Þá fáu mánuði sem ég hef starfað sem þingmaður hef ég verið mjög hugsi yfir starfsaðferðum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég held að stjórnarandstaðan eigi núna verulega möguleika á að bæta sínar samstarfsaðferðir og sín samskipti við þann meiri hluta sem er starfandi í þinginu. Ég held að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu velti þar af leiðandi ekki síður á ábyrgri og agaðri aðkomu stjórnarandstöðunnar að þeim verkum sem vinna þarf hér og ég held að sú ábyrgð sé jafnmikilvæg og jafnrík hjá stjórnarandstöðu og hún er hjá meiri hluta þingsins og fulltrúum stjórnarflokkanna.

Síðan um skattalækkunar- og þensluhvetjandi hagstjórnina. Ég tek undir með þingmanninum að það þarf að gæta þess að keyra ekki út í skurðinn hinum megin. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það sé fagnaðarefni hvernig sú ríkisstjórn sem nú situr hefur tekið á einmitt (Forseti hringir.) skattstefnumótun og vil gjarnan ræða það frekar við þingmanninn í seinna andsvari.