138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var viðtekin venja fyrir einum 11–12 árum í starfsaðferðum á Alþingi að stjórnarandstaðan gegndi formennsku í ákveðnum nefndum. Það gafst ágætlega framan af og ég deili þess vegna ekki skoðunum með hv. þingmanni um að stjórnarandstaðan eigi ekki að vera í lykilhlutverki á vettvangi þingsins og jafnvel að stýra ákveðnum starfsaðferðum og starfsháttum sem náttúrlega er lykilatriði með formennsku í ákveðnum nefndum. Þetta geri ég ekki út af einhverri valdafíkn, vegna þess að ég vilji koma þingmönnum Hreyfingarinnar að eða Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins, heldur til að ná meira jafnvægi í störfum þingsins. Ég hef ekki upplifað það beint undanfarin ár á þingi að það sé mikið jafnvægi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við höfum kallað eftir meira samráði við ríkisstjórnina og ég vonast til þess að það samstarf muni bera einhvern árangur og menn fari að vinna meira saman. Við höfum m.a. átt fundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar um þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn hefur teflt fram um þjóðarsáttarhugmyndir í 10 liðum. Þeim var ágætlega tekið og nú veltur á ríkisstjórninni hvernig framhaldið á því verður.

Ein af þeim hugmyndum sem við teflum þar fram er að takast á við kreppuna. Ég er einfaldlega ekki búinn að sjá að íslenskt samfélag þoli allar þessar skattahækkanir sem ganga yfir heimilin og fyrirtækin í landinu. Því miður er allt við frostmark á þeim bænum og það þarf að grípa til einhverra örvandi aðgerða.

Það þarf að setja meiri kraft í atvinnulífið og það gerum við m.a. með hófstilltri skattstefnu. Fyrir mína parta er þessi ríkisstjórn komin fulllangt til vinstri í þeim efnum.