138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann lítur svo á að ég sé á móti því að stjórnarandstaðan eigi aðkomu að nefndaformennsku í þinginu. Það sem ég á hins vegar við er að ég efast um að það sé lykilatriði. Ég held að lykilatriðið sé afstaða beggja málsaðila, bæði meiri hluta og minni hluta í þinginu, til þeirra verkefna sem vinna þarf og til verklagsins. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, mörg og knýjandi verkefni bíða, m.a. þurfum við að örva atvinnulífið úr tómum sjóðum núna. Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert í því er að ganga frá t.d. Icesave-samningnum. Vinnubrögðin og umræðan um það mál eru t.d. til vitnis um það sem við erum að ræða hér um þessa óheillavænlegu umræðuhefð og þetta óheillavænlega verklag sem við höfum tileinkað okkur á þessum vinnustað (Gripið fram í.) sem stendur árangri og verkskilum hreinlega fyrir þrifum.

Sem betur fer finnst mér núverandi ríkisstjórn ástunda ábyrga skattstefnu. Hér var innleidd þrepaskipting í skattkerfinu sem ég held að sé mjög mikilvæg á þeim tímum sem við lifum núna þegar jafna þarf lífskjör og dreifa byrðum. En það er hins vegar alveg rétt að það þarf að vanda sig vel við slíka stefnumótun og í kreppustjórnun er mikilvægt að hægt sé að örva hagkerfið og auka útgjöld. Eins og ég sagði er vandi okkar náttúrlega sá núna að sjóðirnir eru tómir þannig að það sem við getum kannski treyst á núna og þurfum að geta treyst á er vilji okkar og heiðarleiki til að ganga sameiginlega til þeirra verka sem vinna þarf.