138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að umræðan um rannsóknarskýrsluna sem hér er á dagskrá verði að hluta til eins og eldhúsdagur og þó í útvíkkaðri merkingu þannig að farið sé yfir hið pólitíska svið, þá pólitísku hugmyndafræði sem hefur ráðið ríkjum, ekki aðeins á því tímabili sem skýrslan nær yfir heldur áratugarins þar á undan og einnig sé farið yfir vinnulag og hegðan framkvæmdarvaldsins, m.a. með hvaða hætti aðilar úti í samfélaginu, hvort sem þeir hafa meiri eða minni völd, meiri eða minni ítök, meira eða minna fjármagn, hafa komið að íslensku samfélagi á undanförnum tveim áratugum.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson lauk ræðu sinni á að tala um (BJJ: Ketti.) foringjadýrkunina og foringjaveldið (BJJ: Og ketti.) og gat nú verið að hann talaði þar af nokkuð biturri reynslu. Það er kannski líka hluti af því sem þessi skýrsla tæpir á, og ekki bara tæpir á heldur gerir að ákveðnu grunnstefi í því sem hefur gerst á undanförnum árum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki hér inni en hann var mjög þekktur fyrir að innleiða hugtakið „fé án hirðis“. (Gripið fram í.) Já, svo sannarlega er núna hægt að velta fyrir sér, ekki bara hvar féð sé og hvar hirðirinn að fénu heldur líka hver sé hirðirinn að skuldunum. Hver er skuldahirðirinn í því samfélagi sem við erum að gera upp? Mikið var talað um fé án hirðis þegar ráðist var á sparisjóðina. Þeir voru eitthvert úrelt fyrirbrigði, félagsleg fjármálastofnun sem byggði ekki á arðsemi eigendanna eða ábyrgðarmannanna. Nei, það var félagsleg ábyrgð sem stóð að baki sparisjóðunum og þar var talað um fé án hirðis. Hvernig fór síðan með sparisjóðina á þessari vegferð? Jú, lögum var breytt, þ.e. lögin voru túlkuð með þeim hætti að það mætti fara að selja þessi stofnbréf, þessi bréf ábyrgðarmannanna sem stóðu að stofnun sparisjóðanna, maður mætti fara að selja þau á markaðsvirði. Sú þróun byrjaði ekki í litlu sparisjóðunum úti á landi. (Gripið fram í: Nei.) Nei, hún byrjaði hér. Ætli það hafi ekki fyrst verið Sparisjóður Hafnarfjarðar? Síðan kom SPRON og svo, hvort hann heitir BYR eða hvað þeir heita núna. Þetta eru allt saman sjóðir sem verða skráðir á spjöld sögunnar.

Fé án hirðis var breytt í skuldir án hirðis — en hver er hirðirinn þar? Hann er nefnilega ekki óþekktur. Hann er íslenska þjóðin sem axlar þessa stefnu sem byggði á þeirri hugmyndafræði að það væri hrikalegt að vera með fé án hirðis. (Gripið fram í: Gætirðu lesið þetta?) Það voru líka fleiri hirðar sem minnast þess að ef menn áttu óskuldsetta eign áttu þeir vannýtta auðlind. Öll þessi hugtök komu þarna fram og urðu drifkrafturinn að því sem var undanfari þess samfélags sem við erum að gera upp við.

Þessi skýrsla er nú hér til umræðu og það er mjög eðlilegt að við fjöllum um þá pólitík sem liggur henni að baki. Við höfum ekki lesið hana svo ítarlega að við getum farið að vitna í hana frá orði til orðs. Engu að síður er það styrkur Alþingis að hafa látið ráðast í þessa skýrslugerð og þessa samantekt og að henni skuli hafa verið fundinn farvegur þar sem farið verður yfir einstök atriði hennar, þau metin á einhvern veg, hvort grípa þurfi til einhverra sértækra aðgerða gagnvart einhverjum sem þar eiga hlutdeild að en ekki hvað síst var hlutverk nefndarinnar, að mig minnir, þegar hún var sett á stofn að gera ábendingar um hvernig við skyldum skipa málum til næstu ára, fjármálakerfinu, stjórnsýslunni, ráðuneytunum o.s.frv., sem sagt var það hennar að fara ofan í þessi mál og gera tillögur um hvernig þeim verði skipað framvegis.

Ég minnist margs frá þessum árum. Ég kom inn á þing 1999, inn í mitt upphaf hraðeinkavæðingarinnar. Mér fannst svolítið ósanngjarnt að heyra frá skýrsluhöfundum að nánast allir hefðu verið á sama báti í þessari vegferð. Að vísu er í einni bókinni gerð grein fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi haft þar vissa sérstöðu. En á Alþingi var svo rækilega varað við því sem var að gerast. Þó að hópurinn væri ekki fjölmennur, þó að við værum sex og síðan fimm þingmenn Vinstri grænna beittum við því sem við áttum, málfrelsinu, og samanlagt töluðum við á þeim tíma eins og allur annar þingheimur. Það var það baráttutæki sem við áttum. Við lögðum fram hvert þingmálið á fætur öðru og lögðum til allt aðra nálgun, allt aðra sýn, hvort heldur það var fyrir fjármálakerfið, atvinnulífið, fyrir grunnþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, fjarskiptin, símann eða póstþjónustuna, við lögðum fram þingmál og hvöttum til að farin yrði allt önnur leið en farin var, einkavæðingarleiðin.

Ég minnist baráttunnar um Íbúðalánasjóð. Öll árin var tekist á um Íbúðalánasjóð. Ég minnist þess í ræðu sem mig minnir að þáverandi forsætisráðherra hafi flutt á ársfundi Seðlabankans, líklega 2003 eða 2004, að brýnasta málið væri að koma Íbúðalánasjóði í hendur bankanna til að styrkja stöðu þeirra í sókn innan lands og utan. Þetta stríð stóð öll þessi ár. Okkur tókst að verja Íbúðalánasjóð sem betur fer. Ég sé að hér er hv. formaður Framsóknarflokksins, í þeim flokki voru líka menn sem lögðust gegn því að einkavæða og tortíma Íbúðalánasjóði þó að það væri hin opinbera stefna stjórnvalda á þeim tíma. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var alveg einörð í þeim málflutningi og við getum m.a.s. séð hver staðan er svo seint sem í september 2008. Þá segja Samtök atvinnulífsins að brýnt sé að afhenda bönkunum Íbúðalánasjóð til að treysta eiginfjárstöðu þeirra á erfiðum tímum. Enn stöndum við frammi fyrir umræðum um hvort eigi að hlutafélagavæða hluta af Íbúðalánasjóði. Við erum enn í vörninni. Ég get nefnt markaðsvæðingu raforkukerfisins sem við tókum líka slaginn um. Í einkavæðingu Landssímans átti bara að vera formbreyting. Hver á núna Landssímann? Það var ekki einu sinni hægt að skipta honum þá upp í grunnnet og þjónustunet en innan árs eftir að hann hafði verið seldur var honum skipt upp í tvö fyrirtæki. Eitt sem landsmenn vissu var að um leið og búið yrði að selja Landssímann yrði þjónustustöðvunum á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og víðar lokað. (Forseti hringir.) Þannig merktu menn þá breytingu sem var, frú forseti, þannig að ég held að það sé (Forseti hringir.) af mörgu sem við getum lært. Það er ekkert óeðlilegt og við verðum að fara í gegnum þá umræðu sem þessi mál fengu. Það var tekinn slagur um þau á (Forseti hringir.) þessum tíma og hann verður tekinn áfram.