138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skoðun mín varðandi Evrópusambandið er óbreytt og ef eitthvað er þá er hún sterkari en hún var, sem er erfitt, að við eigum ekkert erindi þangað. Að draga umsóknina til baka er á valdi Alþingis, þannig að ef meiri hluti á Alþingi tekur ákvörðun um að draga umsóknina til baka þá verður hún dregin til baka. (Gripið fram í.) Það er enginn ráðherra sem ákveður (Gripið fram í.) hvort heldur er gert. Það er Alþingi sem ræður. Erum við ekki einmitt að tala um styrk Alþingis? Ég vísa líka til Alþingis.

Varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru núna undirstöðugreinar íslensks atvinnulífs og þaðan sækjum við sérstaklega styrk við endurreisn íslensks atvinnulífs og þurfum að standa vörð um þær. Það er ekki svo sjálfgert að standa vörð um íslenskan landbúnað úti um allt land og standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. (Gripið fram í: Jú.) Það er ekki svo sjálfgert, (Forseti hringir.) en við skulum takast á við það saman og treysta það.