138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög sérstakt að heyra hv. þm. Pétur H. Blöndal sem líklega hefur verið í ríkisstjórn, var ekki hv. þingmaður í ríkisstjórninni 1991 þegar við (PHB: Ég var ekki í ríkisstjórn.) — hv. þingmaður var í þeim flokki sem myndaði ríkisstjórn og stóð hér að þeirri lagasetningu og (PHB: Ég var ekki ráðherra.) því eftirlitsumhverfi sem sett var. Það má vel vera að hv. þingmaður hafi — og ég virði það oft við hv. þingmann — fylgt sannfæringu sinni en ekki flokksaganum í sumum þeim málum sem hann vitnaði hér til þegar verið var að setja lög um eftirlitskerfið sem hv. þingmaður segir að hafi brugðist. En hann studdi engu að síður þá ríkisstjórn sem setti allt þetta vitlausa eftirlitskerfi sem brast og brást.

Það er voða þægilegt að koma svo hér inn. Og af því að hv. þingmaður var að vísa til Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í tíð hvaða ríkisstjórnarflokka var í raun gengið frá þeim grunnsamningum? (Forseti hringir.) Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem þá var.