138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna, þó að hann hafi ekki mikið rætt um framtíðina og hvernig hann vill sjá Ísland framtíðarinnar byggt upp. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra var að miklu leyti til bundinn í fortíðinni, sem er náttúrlega nauðsynlegt að vissu leyti en menn mega ekki eingöngu horfa í baksýnisspegilinn, við þurfum líka að horfa fram á veginn.

Hæstv. ráðherra kom hér upp og talaði um það að Framsóknarflokkurinn og viss öfl innan hans hefðu haft það að stefnu að einkavæða Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í: Það er rugl.) Mér verður náttúrlega hugsað til virðingar Alþingis þegar hæstv. ráðherra kemur hér upp og fer með slíkar villur. Íbúðalánasjóður var á sínum tíma stofnaður undir forustu Páls Péturssonar félagsmálaráðherra, eins og hæstv. ráðherra veit, og Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um Íbúðalánasjóð.

Það var í tísku á sínum tíma, sérstaklega hjá hægri öflunum í landinu, (Gripið fram í.) að tala fyrir því að leggja sjóðinn niður. Við framsóknarmenn sögðum nei við því og hafi ég haldið ræður um eitthvert málefni oft hér í ræðustól Alþingis er það trúlega um Íbúðalánasjóð. Þegar við ræddum áðan um það hvernig uppgjörið er við Íbúðalánasjóð í skýrslunni sagði ég og tók sérstaklega fram í ræðu minni að ég væri ekki sammála því og að þar væri að mínu viti réttu máli hallað. Við framsóknarmenn höfum alla tíð staðið vörð um Íbúðalánasjóð. Hæstv. ráðherra er að snúa sannleikanum á hvolf. Eins ágætur maður og hæstv. ráðherra er þá er þetta honum ekki til sóma og ég hafna því algjörlega að Framsóknarflokkurinn hafi ætlað að einkavæða Íbúðalánasjóð, þvert á móti, eins og margir af félögum hæstv. ráðherra í Vinstri grænum, þar á meðal Ögmundur Jónasson, (Forseti hringir.) geta staðfest þá höfum við staðið í lappirnar í þeim efnum.