138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hefur verið töluverður samhljómur í því hvernig þingmenn hafa fjallað um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöður hennar, sem er ágætt vegna þess að samhljómurinn er á þeim nótum að menn þurfi að læra af reynslunni og nálgast hlutina á þann hátt að það verði til þess að byggja upp betra samfélag. Það er hins vegar verra ef umræðan fer að verða sífelld endurtekning á sömu frösunum. Við þurfum því að leyfa okkur að kafa aðeins ofan í efni skýrslunnar og það hvernig við þurfum að ræða um hana, hvort það sé eitthvað sem betur megi fara, eitthvað sé að gleymast, stór atriði, eða hvort hugsanlega sé verið að slá ryki í augu fólks til þess að verja það sem svo margir hafa talað um, verja flokkshagsmuni og beina athyglinni frá einhverju sem tilteknir flokkar hafi hugsanlega staðið að.

Ég er ákaflega ánægður að sjá að hæstv. utanríkisráðherra er mættur hér vegna þess að ég ætla aðeins að fjalla um andsvar hans. Ég er reyndar líka í félagi áhugamanna um hæstv. ráðherra. Þetta er óformlegur félagsskapur sem hittist stundum hér frammi í mötuneytinu og við spjöllum um ráðherrann, sem er merkileg persóna. Við höfum einmitt velt því fyrir okkur hvernig hann mundi nálgast umræður um þetta mál og hvernig þessi mikli spunameistari, held ég mér sé óhætt að segja, mundi beina athyglinni frá Samfylkingunni og eitthvert annað, hugsanlega mörg ár aftur í tímann — þó að eðlilegt sé að skoða mörg ár aftur í tímann og aðkomu allra flokka.

Það reyndist rétt hjá okkur að reynt yrði að gera einkavæðingu bankanna að orsök alls sem gerðist að því er virðist. Nú ætla ég ekki að verja hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, enda er ég hræddur um að þeir sem stóðu að kjöri mínu til formennsku í Framsóknarflokknum og þeirri miklu endurnýjun sem þar átti sér stað og endurskoðun á stefnu flokksins — má segja að menn hafi þar verið að hverfa aftur að grunngildum flokksins — yrðu ekki sáttir við það ef ég færi að segja að allt hefði verið í lagi með einkavæðinguna. Það er hins vegar hættulegt þegar menn ætla að reyna að finna eitthvert eitt atriði fyrir mörgum árum og segja að þar sé vandamálið og þá þurfi ekki að hafa eins miklar áhyggjur af öllu hinu. Vandinn liggur svo víða og vandinn liggur kannski ekki hvað síst í því hvers lags fyrirkomulag þróaðist, óháð því hverjir keyptu bankana til að byrja með. Nú ætla ég að taka nokkur dæmi.

Glitnir var til að mynda aldrei einkavæddur og féll þó fyrstur allra banka. Þar af leiðandi má vera ljóst að það er ekki eingöngu einkavæðingin sem slík sem skapar vandamálið, það er eitthvað við það hvernig menn komast upp með að reka banka á Íslandi. Svo er annað vafaatriði. Ég er reyndar sammála hæstv. ráðherra um að æskilegt hefði verið að einkavæða með því að eignarhald færi í dreifðari eignaraðild, helst sem allra dreifðasta. Það er hins vegar ekki lausn á vandanum eitt og sér. Við sjáum t.d. hvernig einkavæðingu var háttað í Rússlandi þar sem menn ákváðu að einkavæða með því að senda hlutabréf á alla íbúa eftir þjóðskrá. Ég held að yfirleitt hafi verið valið fólk sem var kannski í grennd við þau fyrirtæki sem var verið að einkavæða en reynt að skipta þessu jafnt á milli allra. Það leiddi til þess að menn fóru um og keyptu hlutabréf í verðmætustu fyrirtækjunum, oft jafnvel bara fyrir vodkaflösku eða eitthvað slíkt, og náðu þannig að safna tiltölulega litlum hluta af eignarhaldinu en náðu þannig algjörum völdum yfir fyrirtækinu vegna þess að eignarhaldið var svo dreift, svo að það eitt og sér leysir ekki vandann.

Svo er annað varðandi það hvernig umræðan hefur verið um einkavæðinguna þegar reynt er að tala bara um einn atburð í einkavæðingunni, sérstaklega kannski af hálfu flokks hæstv. utanríkisráðherra, og gleyma því þar með hvert viðhorfið var til einkavæðingarinnar. Ég man ekki betur en hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafi einmitt talað um það, þegar Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn og Samfylkingin kom í staðinn, að nú væri loksins hægt að halda einkavæðingunni áfram og ráðast í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég man ekki betur en Samfylkingin hafi samþykkt það — og þetta er ekki spurning um að muna, þetta er til skjalfest — með Sjálfstæðisflokki að einkavæða Íbúðalánasjóð. Hvernig ætli það væri nú ef Íbúðalánasjóður hefði verið einkavæddur til viðbótar við allt hitt? Það er því svolítið holur hljómur í því þegar fulltrúar Samfylkingarinnar ætla með slíkum hætti að gagnrýna einkavæðinguna og horfast þar með ekki í augu við það að þeir hafi farið út af brautinni hvað stefnumál sín varðar.

Svo er það nýja einkavæðingin, endureinkavæðing bankanna, hvað hefur eiginlega gerst þar? Það er lítið talað um seinni einkavæðinguna þar sem menn hafa þó leitt að því líkur að bankarnir séu nú að miklu leyti komnir í eigu stórra erlendra banka og vogunarsjóða, sem eru kannski ekki líklegir til þess að hafa mikla samúð með íslenskum lántakendum bankanna. Við þurfum að vera tilbúin til þess að skoða allt heila sviðið.

Af því að ég er nú kominn út í þessa umræðu, um nálgun hæstv. utanríkisráðherra og flokks hans á þetta mál, hef ég svolitlar áhyggjur af því, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að sá flokkur ætli einhvern veginn að leggja áherslu á spunann, sem hann er reyndar svo góður í, það verður að viðurkennast, í stað þess að horfa á staðreyndir. Tökum sem dæmi umræðuna um íbúðalánin, sem reyndar hefur komið fram að var að miklu leyti villa, staðreyndavilla — Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna hefur m.a. bent á það — villa sem hugsanlega verður þá leiðrétt í skýrslunni, en allt í lagi með það. Samfylkingarþingmenn gripu þetta á lofti en áttuðu sig svo á því að þeir voru jú á sínum tíma ekki á móti þessu. Þeir vildu reyndar ganga enn lengra. Það var bara Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi ekki rýmka til þó að hann hafi nú gert það af ástæðum sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir lýsti áðan, að sögn Geirs H. Haardes. Hvers vegna var sú afstaða hjá Sjálfstæðisflokknum? Jú, hann vildi Íbúðalánasjóð feigan, það var ekkert flóknara en það. Hjá hinum flokkunum snerist þetta þó um að standa vörð um Íbúðalánasjóð.

Svo eru það skattahækkanirnar. Menn tala um hagstjórnarmistök liðinna ára og ég er alveg sammála því sem þar hefur verið sagt, mikil hagstjórnarmistök hafa átt sér stað. En hvernig var þetta þegar þenslan var í hámarki hér 2007 og ný ríkisstjórn var mynduð? Það er rakið í stjórnarsáttmálanum að mikilvægt sé að halda áfram skattalækkunum, þá á versta tíma. Og hvað með þensluna sem flokksmenn hæstv. utanríkisráðherra tala nú um að hafi fyrst og fremst verið hér fyrir mörgum árum? Þenslan náði algjöru hámarki eftir að ný ríkisstjórn tók við, þá opnuðust allar gáttir og sett var sögulegt Íslandsmet í útgjaldaukningu hjá ráðuneytum Samfylkingarinnar. Var það ekki 38%, alla vega hátt í 40%, útgjaldaaukning? Annað eins hafði aldrei áður gerst í Íslandssögunni. Það opnuðust hreinlega allar flóðgáttir og peningarnir flæddu yfir allt á versta hugsanlega tíma.

Að lokum var það útrásin og umræða um hana. Nú verð ég eiginlega að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, því að ég geri ráð fyrir að hann komi hér í andsvar, hvort það sé nokkuð ofsögum sagt hjá mér að enginn flokkur hafi verið jafnspenntur fyrir útrásinni og Samfylkingin. Fannst Samfylkingunni þetta ekki það frábærasta sem hefði nokkurn tíma gerst á Íslandi? Þetta var svo alþjóðlegt og þetta var svo mikið „Ísland að verða þátttakandi í umheiminum“ og allt það á forsendum hins nýja hagkerfis. Það var ekki lengur framleiðsla á landbúnaði og sjávarútvegur og eitthvað slíkt, þetta var allt þetta nýja og alþjóðlega. Þetta fannst Samfylkingunni stórkostlegt og benti á (Gripið fram í.) að það væri ekki vegna þess að ríkisstjórn þess tíma hefði náð þessum árangri sem útrásin var að þeirra mati og vöxtur fjármálakerfisins — og sérstaklega er getið um það í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að fyrirtækin verði að fá að halda áfram í útlöndum, með höfuðstöðvar á Íslandi. Nei, það var ekki vegna þess að ríkisstjórn þess tíma hefði gert svo vel að veita þetta frelsi, það var EES-samningurinn. Þetta var allt EES-samningurinn. Það var Jón Baldvin sem hafði útvegað þessa miklu útrás að mati Samfylkingarinnar á þessum tíma.

Ég nefni bara þessi fáu atriði hér til þess að setja hlutina aðeins í samhengi og reyna að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að taka þátt í umræðu um allt sviðið, öll þau ár sem liðu fram að efnahagshruninu, í stað þess að reyna að beina sjónum manna eingöngu að afmörkuðum atriðum.