138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svigrúmið til að fá að klára umræðuna um ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en ég verð ekki með langa ræðu hér. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um — mér hefur fundist það vanta í ræðum þingmanna hér í dag og í gær og í ræðum formanna stjórnmálaflokkanna — er hver afstaða þeirra sé til siðferðislegrar ábyrgðar fyrrverandi ráðherra og þingmanna sem nú sitja á þingi í tengslum við hrunið. Uppi hafa verið alls konar sögur og fréttir í marga mánuði og á annað ár. Flestallar þær grunsemdir voru staðfestar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Lagaleg og formleg ábyrgð á hruninu er mjög þröng og ítarlega skilgreind og það verða mjög fáir ef einhverjir sem þurfa að sæta ábyrgð á þeim vettvangi. Að mínu viti er hin siðferðislega ábyrgð ekki síður mikilvæg, að menn axli hana með einhverjum öðrum hætti en orðskrúði. Ég hef ekki heyrt mikið um það, hvorki frá þingmönnum Framsóknarflokksins né þingmönnum annarra flokka, hvaða afstöðu þeir hafa til hugsanlegrar siðferðislegrar ábyrgðar þingmanna, hverjir þeir þingmenn eru og á hvaða forsendum hún á að vera. Ég ræddi þetta svolítið í ræðu minni hér í gær og ég heyri þetta ákall um allt samfélagið.

Ef hv. þingmaður gæti tæpt á þessu í svari við andsvari mínu og jafnvel þá ef til vill velt þessu upp á þingflokksfundi flokksins á eftir ef þetta hefur ekki verið rætt í Framsóknarflokknum.