138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

samstarfsyfirlýsing við AGS.

[10:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hljómar dálítið sérkennilega að þingheimur og í rauninni aðrir flokkar en flokkur hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki fá að vita hverju er verið að lofa fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra margoft lýst því yfir að uppfylla þyrfti einhverjar ákveðnar kröfur, til að mynda varðandi Icesave-málið sem hann nefndi. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort verið er að ganga að einhverjum slíkum kröfum og að hversu miklu leyti. Þó að vísað sé í það að hér séu menn að starfa í samræmi við samstarfsyfirlýsingu flokkanna eða það sem þeir höfðu náð saman um þá hefur það verið frekar óljóst fram að þessu.

Ég skal því einfalda spurninguna með því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Felur yfirlýsingin í sér einhvern tiltekinn kostnað varðandi Icesave?