138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

samstarfsyfirlýsing við AGS.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Svarið er að sjálfsögðu nei, enda er í viljayfirlýsingunni fyrst og fremst verið að árétta áframhaldandi einbeittan vilja Íslands til að leysa þetta mál með samningum. Það er inntak þessarar tiltölulega einföldu yfirlýsingar. Ég get alla vega fullvissað menn um eitt og það er það að mikil framför hefur orðið á orðalagi þessa einfalda ákvæðis í samstarfsyfirlýsingunni frá því sem þar var sett á blað í nóvembermánuði 2008 enda hefur auðvitað mikið gerst síðan. Menn þurfa ekki að kvíða því — samningsstaða Íslands tekur ekki breytingum til hins verra þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu, þvert á móti er það auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur ef við náum endurskoðuninni fram og í framhaldinu fæst aðgangur að þeim gjaldeyrislánum sem fylgja eiga með, því að þar með verður staða Íslands til muna sterkari og vænlegri og við þolum frekar bið á því að Icesave-málið leysist.

Að öðru leyti er efnahagsáætlunin fyrirliggjandi og það er verið að fylla inn í þann ramma sem þingmönnum er kunnur, var kynntur hér (Forseti hringir.) með ítarlegri skýrslu á Alþingi í júnímánuði sl. Þar eru meginmarkmiðin um að ná frumjöfnuði á árinu 2011 og heildarjöfnuði á árinu 2013 í ríkisbúskapnum sem eru leiðarhnoðan í þeirri áætlun.