138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bréf ráðherra til forstjóra Sjúkratrygginga.

[10:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég er auðvitað undrandi og vonsvikin á þessum orðum hv. þingmanns. Ég var að skýra það hér áðan að það er langt í frá að sú sem hér stendur eða ráðuneytið yfir höfuð hafi athugasemdir við það að leitað sé til Ríkisendurskoðunar. Ég hef sjálf bæði sem stjórnarmaður í Landsvirkjun, sem almennur þingmaður og nú síðast sem heilbrigðisráðherra leitað formlega til Ríkisendurskoðunar. Hún er óháð og henni ber að svara þeim erindum sem henni berast. Og það eru ekki deilur um það á milli mín eða forstjóra Sjúkratryggingastofnunar eða milli mín og Ríkisendurskoðunar um að það sé rétt verklag þannig að ég frábið mér slíkt.

Mig langar til að segja að eftir fund í heilbrigðisráðuneytinu á mánudaginn var hefur náðst samkomulag um afgreiðslu og framkvæmd umræddrar reglugerðar sem var tilefni þessa bréfs og tilefni þess að forstjórinn leitaði til Ríkisendurskoðunar en ekki ráðuneytisins. (Gripið fram í.) Þar með hefur verið hafin afgreiðsla á umsóknum (Forseti hringir.) þess fólks sem býr við alvarlega galla í munnholi og hefur verið afskiptur hópur í okkar samfélagi, 70–80 manna hópur. Það er búið að afgreiða umsóknir sem lágu fyrir og það var gert í gær. (Forseti hringir.) Og vegna þess að aftur hefur tekist trúnaður á milli (Forseti hringir.) forstjóra Sjúkratryggingastofnunar og heilbrigðisráðuneytisins afhenti ég honum í morgun bréf þar sem fram (Forseti hringir.) kemur að með þessari afgreiðslu, það er aðalatriði málsins, sé ekki lengur tilefni (Forseti hringir.) til að veita honum áminningu samkvæmt þeim lögum sem ég tilgreindi áðan. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ef hv. þingmanni finnst það svo fyndið verð ég aftur (Forseti hringir.) að lýsa vonbrigðum með afstöðu hans.