138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

vandi ungs barnafólks.

[10:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og við röktum í utandagskrárumræðu um þetta mál fyrir páska er enginn hópur í landinu sem hefði jafnlítil not af 20% niðurfellingu skulda og skuldsett barnafólk vegna þess að skuldirnar eru svo miklar að 20% duga ekki til að koma fjármálum fólks í rétt horf. Það sem er ánægjulegt við þessa niðurstöðu Seðlabankans er að hún sýnir þó að hinar almennu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til hafa dugað til þess að fjöldi þeirra sem eru í alvarlegum vanda er nokkuð óbreyttur núna frá því sem hann var í upphafi árs 2008. Það segir hins vegar ekki alla söguna því að eftir er að leysa úr málum þeirra sem enn eru í vanda. Með þeim úrræðum sem lögfest hafa verið, og verður mælt fyrir vonandi á morgun og afgreitt fljótt á Alþingi, erum við að búa farveg til þess að þau erfiðu skuldamál sem eftir standa verði leyst því að það mun í mörgum tilvikum ekki duga til 20% niðurfellingar heldur þarf að koma til miklu meiri niðurfellingar.

Það er líka alveg ljóst að fyrir þennan hóp eru bílalán mjög alvarlegur vandi og við erum að vinna núna að lausn á vanda þeirra sem eru með bílalán í erlendri mynt. Ég á von á því að annaðhvort náist samkomulag við eignarleigufyrirtækin eða hér komi fram frumvarp á Alþingi á næstu dögum um lausn á þeim vanda. Það er alveg ljóst af niðurstöðum Seðlabankans að hlutfall þeirra sem eru með verulega þunga greiðslubyrði vegna erlendra bílalána er hæst meðal ungs barnafólks og meðal ungs fólks. Þess vegna er mjög mikilvægt að koma með almennar lausnir á myntkörfubílalánavandanum til að greiða fyrir stöðu þessa fólks.