138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

lífeyrisréttindi.

[10:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í gær barst tilkynning um það að Lífeyrissjóður verslunarmanna ætlaði að skerða lífeyrisréttindi um 10%, líka áfallin réttindi. Þetta þýðir að allir sjóðfélagar í Lífeyrissjóði verslunarmanna sitja uppi núna með 1,2% lægri laun af því að 12% af launum þeirra eru greidd í lífeyrissjóðinn. Ég hef margoft bent á að á Íslandi eru þrenns konar lífeyriskerfi og þar er innifalin tímasprengja. Það er í fyrsta lagi almennu lífeyrissjóðirnir sem þurfa að mæta áföllum með skerðingu réttinda, svo er það A-deildin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem er með föst réttindi, þar þarf ekki að skerða lífeyrisréttindi heldur er iðgjaldið hækkað, þ.e. iðgjald ríkisins, og loks er það B-deildin sem er með 420 milljarða í óuppgerðum áföllnum skuldbindingum. Hvað er það? Hvað eru 420 milljarðar? Það eru 1,4 millj. á hvern einasta Íslending, það eru 5 millj. á hverja einustu fjögurra manna fjölskyldu í landinu sem er óuppgert við B-deildina.

Fyrir ári síðan ákváðu alþingismenn að velja sér lífeyrissjóð, aðrir Íslendingar verða að borga í þann lífeyrissjóð sem þeir eru skyldaðir til, og þeir völdu sér A-deildina sem er næstbest af þessu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji gera eitthvað til að laga stöðuna á milli þessara hópa vegna þess að það eru almennu sjóðfélagarnir sem borga skattana af hækkuninni hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og hvort hann vilji auka lýðræðið í lífeyrissjóðunum þannig að sjóðfélagar geti valið sér það fólk sem fer með þessa gífurlegu fjármuni sem þeir eiga. Svo vil ég spyrja hann hvernig hann ætli að fara að því að jafna þessi kjör, hvort hann hyggist skerða lífeyrisréttindi í B-deildinni eða hækka almenn lífeyrisréttindi.