138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

lífeyrisréttindi.

[11:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Varðandi það að alþingismenn og ráðherrar hafi afsalað sér forréttindum, það er rétt, en þeir völdu sér önnur forréttindi sem felast í því að réttindin eru föst og það skiptir engu máli hvort það verður áfall eða ekki fyrir starfsmenn ríkisins alla, réttindin eru föst. Það er alveg sama hvernig stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hegðar sér eða ávaxtar sitt pund, skattgreiðendur borga með hækkun iðgjalda og það er akkúrat sama fólkið og nú er verið að skerða. Og það að verið sé að skoða þetta, ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé kominn tími til að skipta út fólki. Þetta er nákvæmlega sama fólkið og er búið að vera að víla og díla með lífeyrissjóðina í 20–30 ár. Ég vona að menn læri af þeirri skýrslu sem við höfum verið að ræða hér undanfarna daga og ræðum í dag að það þurfi að taka þessa hluti alla til gagngerrar endurskoðunar og sérstaklega lýðræðið í lífeyrissjóðunum.