138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

störf sérstaks saksóknara og flutningur lögheimila.

[11:12]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leiða getum að því hvaða ástæður liggja því að baki að menn kjósa að flytja lögheimili sitt annað, það er þeirra mál og þeirra ákvörðun. Það þarf ekki að tefja fyrir rannsókninni ef menn eru samvinnufúsir en vissulega getur það gert það ef ásetningurinn er að forðast rannsókn, þá er það auðvitað eitthvað sem tefur.

En hvað varðar það að óska eftir frekari umboði, þá hef ég gengið mjög á sérstakan saksóknara og embætti hans til að fá að vita hvort það þurfi auknar lagaheimildir. Síðar í dag flyt ég frumvarp sem lýtur að skýrara verksviði og það er eitt en síðan koma fjárheimildir og aukinn mannskapur. Síðast en ekki síst hef ég óskað eftir því við sérstakan saksóknara að hann geri mér klárlega grein fyrir því ef hann telur sig skorta eitthvað í lagaheimildum þannig að ég geti þá flutt viðeigandi tillögur í framhaldinu.