138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

viðbrögð við eldgosi í Eyjafjallajökli.

[11:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég á ekki annars kost en að bregðast við þessum ummælum hv. þingmanns sem ég tek góð og gild. Ég skil það að þingmenn Suðurkjördæmis sem og við öll höfum auðvitað áhyggjur af þeim miklu hamförum sem þarna geisa. Það tókst að mínu mati betur til í gær en á horfðist. Það má þakka góðum og vönduðum undirbúningi, bæði almannavarnayfirvalda, lögreglu og Vegagerðar sem hafði viðbúnað og tókst að bregðast við þessum aðstæðum. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að þar hafi verið vel að verki staðið og almennt sé staðið mjög vel að undirbúningi undir þessa hluti. Vönduð skýrsla liggur fyrir sem hægt er að notast við til að meta áhættu og á einstökum svæðum. Rýmingaráætlanir eru tilbúnar og annað í þeim dúr.

Hvað hægt væri að aðhafast til að styrkja mannvirki nú eftir að hamfarirnar eru þegar hafnar er annað mál. Það eru stærri verkefni en svo að í þau verði ráðist eða þau komi að gagni á einhverjum örfáum dögum eða vikum, en að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara yfir það. Tímabundið er kannski mesta áhyggjuefnið sprengigos í megineldstöð með miklu öskufalli. Við því er (Forseti hringir.) afar erfitt að bregðast eins og kunnugt er.