138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hefðir skipta hér heilmiklu máli og hvernig þær þróast, það er án efa alltaf nokkuð einstaklingsbundið hvernig að þessum málum er staðið. Ég sem áhorfandi að því til lengri tíma upplifði þetta þannig að á langri valdatíð sterkra valdstjórna stjórnmálamanna eins og Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar þróaðist þetta með mjög sérstökum hætti yfir í meira og meira einræði flokksformannanna. Það náði hámarki í frægu máli þegar einn maður tilkynnti öðrum, eins og ég held að það hafi gerst, að Ísland ætlaði að styðja stríðið gegn Írak. Við forustumenn núverandi stjórnmálaflokka hittumst að sjálfsögðu iðulega til óformlegs pólitísks samráðs og þá eru ekki endilega færðar fundargerðir, við punktum hjá okkur, en við sitjum þar ein og ræðum málin. Ég held að sá háttur verði aldrei afnuminn að menn hittist og eigi óformleg samskipti um eitthvað sem í gangi er. En það sem skiptir öllu máli er að þar séu ekki teknar ákvarðanir, að menn sem upphefji góða stjórnsýsluhætti líti svo á að mál eigi eftir sem áður alltaf sinn eðlilega farveg í gegnum (Forseti hringir.) ríkisstjórn til þingflokka og Alþingis þegar eiginlegar ákvarðanir (Forseti hringir.) eru teknar. Þessu tvennu mega menn auðvitað ekki rugla saman.