138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:58]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra ræðu hans. Ég undrast oft hversu hófstilltur hæstv. ráðherra getur verið í þessu máli eftir öll þau ár sem hann stóð hér og talaði gegn þessum hrunfyrirboðum. En hvað um það. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því sem hann minntist á um veðlán Seðlabankans og lánamál ríkisins og allt það gríðarlega tap sem Seðlabankinn varð fyrir í þessu hruni. Ég hef ítrekað óskað eftir því í fjárlaganefnd að nefndin biðji um ítarlega stjórnsýsluúttekt á starfsemi Seðlabankans, starfsemi Fjármálaeftirlitsins og samskiptum þessara stofnana sín á milli og samskiptum þeirra við fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið í aðdraganda hrunsins og að sú stjórnsýsluúttekt taki á því með hvaða hætti búið er að breyta vinnulagi síðan. Þessi ósk mín hefur ekki fengið neinar undirtektir í fjárlaganefnd. Mér finnst þetta mjög óþægilegt og mjög einkennilegt, því það getur ekki verið æskilegt að sömu samskiptamátar séu enn í gangi og að sama fólkið og sagði ekki orð opinberlega um eitt eða neitt í aðdraganda þessa hruns sé e.t.v. enn að sinna sömu störfum. Ég er ekki að gera kröfu um að fólk verði látið víkja eða eitt eða annað, en það hlýtur að þurfa að upplýsa þing og þjóð um með hvaða hætti búið er að gera breytingar til batnaðar í þessum mikilvægu stofnunum til að þetta geti ekki gerst aftur.

Mig langar til að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra hyggst kannski beita sér með okkur þingmönnum í því að það verði gerðar hér ítarlegri úttektir á þessum stofnunum heldur en koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.