138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Leiðtogavæðing stjórnmála er athyglisvert viðfangsefni út af fyrir sig. Ég tel mig ekki hafa verið í fararbroddi þess að það eigi að líta á formenn stjórnmálaflokka sem eitthvað öðruvísi en aðra stjórnmálamenn og vísa því nú frekar til annarra. Ég held að allir sem hafa fylgst með stjórnmálasögunni viti að einn flokkur umfram alla aðra hefur haft þá venju að gera formenn sína að guðum og ef þeir hafa ekki a.m.k. orðið hálfguðir hafa þeir yfirleitt ekki setið lengi í embætti þess flokks. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn. Það hefur verið algerlega sérstakur kúltúr þar á bæ varðandi það að borgarstjórinn í Reykjavík eigi að koma úr röðum íhaldsins, hann sé hálfguð, hann verði síðan gjarnan að formanni Sjálfstæðisflokksins og þá sé hann alguð. Ef menn ná ekki að verða einhverjar af hinum stóru stjörnum stjórnmálanna ganga þeir ekki í embætti. (Gripið fram í.) Það snýr að hverjum formanni og hverjum flokki fyrir sig að takast á við þessa hluti innanvert hjá sér.

Varðandi samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er það að sjálfsögðu ekki þannig að ráðherrar eða framkvæmdarvaldið geti með einhverjum aðgerðum sínum bara tekið sér vald sem þeir ekki hafa samkvæmt stjórnskipun frá Alþingi. Það er í höndum Alþingis sjálfs að láta það ekki gerast. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að menn geti bara tekið sér vald. Við erum hér með þingbundnar ríkisstjórnir og yfirleitt meirihlutaríkisstjórnir og þar með stendur sami meiri hlutinn á Alþingi að baki þeim sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni. Menn geta rætt um kosti og galla þess fyrirkomulags í grunninn og spurt sig: Erum við komin með efasemdir um það yfir höfuð að þannig eigi þetta að vera? Það er ég í sjálfu sér ekki þó að ég viðurkenni vel að þróunin hafi verið mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga á umliðnum tveimur áratugum eða svo.

Upp úr 1990 voru gerðar markvissar tilraunir til að styrkja Alþingi með því að setja það saman í eina málstofu, með því að styrkja þingnefndir, búa til þingnefndasvið og ráða starfsfólk til aðstoðar þingmönnum. Það var bryddað upp á þeirri nýjung að stjórnarandstæðingar væru formenn (Forseti hringir.) í þingnefndum í bland við stjórnarliða. Þetta var allt slegið af. Hvenær var það? Það var í valdatíð sömu foringja og hér (Forseti hringir.) voru nefndir áðan, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.