138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði að innviðir Alþingis sem stofnunar væru fúnir og það væri með ólíkindum hve vantaði upp á faglega lagasetningu og að nefndasvið Alþingis skilaði ekki því starfi sem ætlast er til sem ráðgefandi aðili við lagasetningu. Þetta er mat hennar á störfum Alþingis. Ég hef hugsað mér að nota svipuð orð. Það er ágætt að fá að vita ef taka á upp nýja starfshætti úr forsetastóli að við þingmenn fáum að vitað hvað bíður okkar. Þess vegna ræði ég þetta. Morgunblaðið fer nefnilega ágætlega yfir þá orðræðu og vitnar í þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir á að hafa látið falla. Þeir geta ekki séð hvað það er í orðum hennar sem olli því að hæstv. forseti gerði athugasemdir við ummæli hennar. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er til þess fallið að rýra traust almennings á Alþingi er það nákvæmlega svona hegðun (Forseti hringir.) og orð sem hæstv. forseti lét út úr sér.