138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svör. Ég get að vissu leyti tekið undir með honum. Þótt ég hafi ekki mikla reynslu af að sitja á þingi, ég kom inn í nóvember 2008, sýnist mér af viðbrögðum stjórnsýslunnar að það hafi komið svolítið á óvart hve mikið frumvörp hafa tekið efnislegum breytingum í meðferð þingsins. Það virðist vera eitthvað sem menn voru ekki vanir og það er mjög jákvætt.

Hins vegar vil ég benda á að það eru, að mig minnir, tvö þingmannamál búin að fara í gegn á þessu þingi. Annað er mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var margítrekað búin að leggja fram og síðan mál sem mér skilst að hv. þm. sjálfur Helgi Hjörvar hafi verið 1. flutningsmaður að. Ef við berum þetta síðan saman við þann gífurlega málafjölda sem verið er að dæla hingað inn úr Stjórnarráðinu frá ráðuneytunum held ég að hlutföllin séu mjög ójöfn.

Ég hef verið að velta svolítið fyrir mér þingstörfunum sjálfum, þingsköpunum. Mér hefur t.d. fundist það mjög áhugavert sem ég hef fylgst með hjá sænska þinginu, þar sem fara fram umræður, þar eru tveir ræðustólar þar sem þingmenn tala saman. Þar eru miklu lengri og umfangsmeiri umræður og hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með því. Ég held að sé mjög mikilvægt að við förum ekki að hleypa í gegn mjög mikilvægri löggjöf eins og fjölmiðlalögunum án þess að við tökum á þessum þáttum þannig að við getum í raun styrkt fjölmiðla, styrkt ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra, styrkt óhæði þeirra gagnvart eigendunum. Að mínu mati komum við í núverandi frumvarpi engan veginn til móts við þær ábendingar sem komu fram í rannsóknarskýrslunni um þau efni.