138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég hef hugsað mjög mikið um orðið „traust“ í töluverðan tíma en sérstaklega núna eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Það er mjög mikið áhyggjuefni hve lítið traust er borið til okkar sem störfum á Alþingi. Það er að vísu skoðun mín að það sé mikilvægt að við séum alltaf að ræða um hvernig við getum aukið traust til stjórnmálamanna og til stjórnmálaflokka og það á að sjálfsögðu ekki að þurfa eitthvert allsherjarefnahagshrun til að við veltum því fyrir okkur. Þetta er umræða sem við framsóknarmenn erum búnir að eiga innan flokksins töluvert lengi og ég hef verið að velta fyrir mér hvernig byggjum við upp traust í raun og veru. Ef maður hugsar til samskipta við sína nánustu, t.d. hver ástæðan er fyrir því að dóttir mín treystir mér, er það vegna þess að ég geri yfirleitt það sem ég segi og ég segi það sem ég geri. Ef ég ætla að ná í hana á leikskólann segi ég það við hana. Ég fer ekki frá henni án þess að kveðja hana og þó að ég sé að tala um níu og þriggja ára gamlar dætur mínar held ég að þetta samræmi á milli þess sem við segjum og það sem við gerum skipti öllu máli. Það er það sem ég held að hafi brugðist á Íslandi. Ástæðan fyrir því að í síðustu mælingu mældist traust til Alþingis 13%, er að við stjórnmálamenn höfum ekki verið að gera það sem við segjumst eiga að vera að gera.

Eins og flestir kannast við hafa framsóknarmenn farið í mikla endurnýjun innan flokksins. Við höfum tekið mörg skref til að reyna að vekja upp traust aftur á flokknum en það er líka skoðun mín eftir að hafa hugsað mikið um þetta að það sé ekki nóg að skipta bara um fólk. Það er ekki nóg að skipta um fólk í brúnni. Í tilfelli okkar framsóknarmanna verðum við líka að endurskoða og endurmeta hvað það er sem flokkurinn stendur fyrir: Hver er stefna Framsóknarflokksins? Hvað höfum við fram að færa gangvart þjóðinni? Ég tel að það sem við höfum fram að færa séu þessi upprunalegu gildi Framsóknarflokksins, raunveruleg samvinna, við töluðum mikið um mikilvægi lýðræðis: Einn maður, eitt atkvæði — þið sjáið hvað við framsóknarmenn höfum farið langt frá því — og samfélagsleg ábyrgð.

Við erum að fara að halda miðstjórnarfund í flokknum hjá okkur um þarnæstu helgi þar sem okkar helstu trúnaðarmenn ætla að koma saman. Við ætlum að ræða skýrslu rannsóknarnefndarinnar ofan í kjölinn eins og við mögulega getum og grandskoða þær upplýsingar sem þar koma fram, okkar hlut í stjórn þessa lands og ábyrgð okkar á hruninu.

Við ætlum líka að leggja fram nýjar siðareglur flokksins til umfjöllunar á miðstjórnarfundinum. Þessar siðareglur eru í samræmi við álit flokksþings okkar frá því í janúar 2009 og í kjölfar þess að við leggjum þetta til umfjöllunar á miðstjórnarfundinum þurfum við síðan að huga að nauðsynlegum breytingum á lögum flokksins. Ég tel að þetta skref hjá okkur sé mjög í takt við þær ábendingar sem fram koma í siðferðishluta skýrslunnar um stjórnmálamenningu á Íslandi þar sem bent er á hvernig við getum lagað það sem fór úrskeiðis.

Eitt af því sem ég tel að við þurfum sérstaklega líka að ræða bæði innan dyra og innan flokkanna er foringjaræðið í íslenskum stjórnmálum. Í skýrslunni segir um íslenska pólitík, svo ég vitni, með leyfi forseta:

„Eitt einkenni hennar er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. Um það segir íslenskur stjórnmálamaður með langan feril úr pólitíkinni: „Auðvitað er það svo að flokksræðið nánast í öllum stjórnmálaflokkunum hefur þróast í ofurvald foringjans og klíkunnar. Þess vegna er lýðræðið okkar svona brothætt og veikt og ég velti því fyrir mér hvort í rauninni þurfi ekki að stíga mörg sterk skref vegna þessarar reynslu til að tryggja sterkari stjórnmálamenn og minna foringjaræði.““

Í skýrslunni er jafnframt spurt hver sé ástæðan fyrir þessu mikla valdi formanna flokkanna. Erum við svona vön sterkum leiðtoga að við kunnum ekki neitt annað? Hvernig getum við brugðist við því? Hvernig getum við lært nýja starfshætti? Ég vil nefna dæmi um að þetta foringjaræði sé ekkert lögmál í stjórnmálum í hinum stóra heimi. Þá vil ég benda á sænska umhverfisflokkinn, þeir hafa tilnefnt tvo talsmenn, karl og konu, í samræmi við áherslu þeirra á jafnrétti. Þeir leggja mjög mikið upp úr því að vera með mjög flatt skipulag í flokknum þannig að flokksmenn komi sem mest að ákvarðanatöku innan flokksins. Þetta er það sem ég mun leggja til á miðstjórnarfundi að við framsóknarmenn gerum og í framhaldinu vinnum við síðan áfram á flokksþingi sem haldið verður í janúar og ræðum um hvernig við getum bætt ferli okkar innan flokksins. Hvernig getum við skýrt það sem líka er kallað eftir í skýrslunni, ábyrgð einstakra flokkseininga? Hvert er hlutverk flokkseininganna? Hvert er hlutverk kjördæmasambandanna? Hvert er hlutverk þingflokksins og hvert er hlutverk forustunnar? Hvernig eiga þessar einingar síðan að spila saman? Ef við tölum síðan um þennan vinnustað minn, Alþingi, verðum við að leita leiða til að draga úr ráðherraræði, draga úr því að það séu örfáir einstaklingar, hin svokallaða klíka sem stjórnar þessari stofnun þannig að við, hvort sem við erum komin með aðeins lengri reynslu eða erum ný, afgreiðum frumvörp fyrir ráðuneytið. Við verðum að breyta því.

Við verðum líka að styrkja eftirlitshlutverk okkar. Þar eru meginniðurstöður skýrslunnar. En það er ekki hægt að segja að við ætlum að gera það með pólitík. Það er nefnilega það sem mér fannst vera svo áhugavert sem rannsóknarnefndin talaði um í niðurstöðunni, það hefur skort á pólitíska stefnumörkun frá stjórnmálamönnum þannig að embættismenn sem eiga að framkvæma þessa pólitísku stefnumörkun viti hvað þeir eiga að gera. Ef maður er með Evrópurétt, tilskipun frá Brussel, hver er pólitíska stefnumörkunin varðandi innleiðinguna? Við höfum svigrúm og höfum við séð það í öðrum löndum hvað gerist ef við nýtum okkur ekki það svigrúm sem er til staðar innan þessarar löggjafar.

Það er talað um það í skýrslunni að á Íslandi hafi verið mun óheftara meirihlutaræði en í öðrum smáríkjum í Evrópu sem hafa haft traustari lýðræðishefðir en við. Það er spurningin sem við þurfum að velta fyrir okkur: Hvernig förum við að því að efla Alþingi á sama tíma og við þurfum að draga saman? Hvernig forgangsröðum við? Hvað er það sem lítið land með 320 þúsund einstaklinga, frábært og öflugt fólk en bara 320 þúsund einstaklinga, ræður við? Hvað er það sem við getum gert? Getum við verið með sjö háskóla? Getum við verið með kauphöll á Íslandi? Hvers konar vátryggingamarkaður á að vera hérna? Hversu stór á hann að vera? Þetta eru allt spurningar sem við verðum að fara að spyrja okkur og við höfum ekki spurt okkur fram að þessu.

Það sem mig langar til að nefna í lokin er að eins og þið vitið vonandi var ég kosin í nefndina, ég sit í þingmannanefndinni sem tekur við og vinnur úr þessari skýrslu. Þetta er gífurlega mikið og spennandi verkefni að fá að fást við og mikill heiður að mínu mati að fá tækifæri til þess að bæta Ísland, eins og hver einasti af okkur, þessum 63 einstaklingum sem sitja á þingi, hefur tækifæri til að gera, að breyta Íslandi. Við getum tekið það besta sem við höfum í dag og svo getum við gert það enn þá betra, en ýtum burtu því slæma.

Hluti af því sem ég vil nefna og sem nefnt er m.a. í skýrslunni varðandi hvernig við getum hugsanlega styrkt minni hlutann er að skoða að stjórnarandstaðan fái formennsku í nefndum. En á sama tíma getum við líka sett löggjöf um það eða breytt þingsköpunum til að tryggja að mál séu afgreidd úr nefndum þannig að þótt við ætlum að gefa stjórnarandstöðunni meira vald tökum við líka ákveðið vald af formönnum þannig að þeir geti ekki svæft mál í nefndum. Við afgreiðum mál. Við tökum afstöðu til mála.

Önnur tillaga er að ráðherrarnir fari út af þingi. Þetta er eitthvað sem ég held að ætti jafnvel að vera meiri hluti fyrir á Alþingi. Bara sú aðgerð kostar okkur pening en hún þýddi að við fengjum tíu nýja þingmenn hingað inn sem gætu tekið þátt í að vinna verkefnin með okkur. Við þurfum að efla þingið. Við erum að fást við það stór og mikilvæg verkefni að við verðum að efla þingið.

Ég bendi líka á það frumvarp sem liggur fyrir þinginu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir lagði fram (Forseti hringir.) varðandi breytingu á þingsköpum. Ég vil líka benda á frumvarp sem Hreyfingin lagði fram varðandi meðferð mála (Forseti hringir.) í þinginu og við þurfum að hugsa um að við getum ekki bara beðið og gert ekki neitt. (Forseti hringir.) Við höfum tækifæri núna til að breyta hlutunum og við þurfum að hafa kjark og þor sem forverar okkar höfðu ekki.