138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:07]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að hús sé gott þarf það að vera bjart, hlýtt og rúmgott. Flóknara er það ekki. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Eygló Harðardóttir hafði áhyggjur af trausti. Það má alltaf ræða það. Til þess að skapa traust þarf fólk að vera hispurslaust, heiðarlegt og með leikgleði. Það á að vera nóg til þess að skapa traust.

Það þarf ekkert að gera breytingar hér á Alþingi varðandi ráðherra, auðvitað eiga ráðherrar að vera úr hópi þingmanna. Það er skilvirkast, það er mest samband og þá er ekki hægt að slíta neina ábyrgð frá því sem hérna er að mínu mati. Það er bara hluti af þinginu að slíkt sé uppi.

Traust. Hin ágæta skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fjallaði beint og óbeint um traust en fjölmiðlamenn hafa slegið því upp að allt samfélagið hafi verið í hruni. Það er ekki rétt, það er alrangt. Alþingi sem og stórborgarfólkið geta lært af landsbyggðinni um traust. Allar byggðir landsins utan höfuðborgarsvæðisins gengu í gegnum ákveðna hluti og hafa tekið við ákveðnum þáttum í sambandi við hrunið en það varð ekkert hrun þar vegna þess að þar höfðu menn ekki tekið þátt í dansinum um gullkálfinn. Hvergi úti á landsbyggðinni tóku menn þátt í þeim dansi. Og þó að það hafi óbein áhrif í þessum efnum er það bara þannig að þarna lifðu menn sínu lífi, brugðust við, (Forseti hringir.) unnu úr hlutunum og urðu ekki fyrir því hruni sem varð. (Gripið fram í.)