138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannski kannast ekki alveg við þá mynd sem hv. þm. Árni Johnsen dregur hérna upp af því að enginn hafi farið offari úti á landsbyggðinni. Ég held að við könnumst bæði við einstaklinga sem fóru offari fyrir hrunið og upplifa nú afleiðingarnar af því. Við skulum ekkert ræða það hér neitt frekar.

Ég stend algjörlega við það sem ég sagði í ræðu minni. Ég tel að það sé ekki nóg að sýna ákveðinn léttleika en ég tek undir að það skiptir máli að sýna heiðarleika. Við byggjum ekki upp traust öðruvísi en gera það sem ég sagði, að fylgja því eftir sem við segjum: Ef við segjum eitthvað stöndum við við það. Ef við viljum að fólk treysti okkur verðum við að standa við orð okkar. Við ljúgum ekki að fólki, við segjum satt. Það var það sem íslenskur almenningur fékk að upplifa fyrir hrun, að stjórnmálamenn stóðu fyrir framan myndavélarnar og lugu upp í opið geðið á fólki. Við sjáum nú afleiðingarnar af því í framhaldinu, við sem einstaklingar, þó að við höfum ekkert komið nálægt þessu, við gjöldum þess að forverar okkar lugu að almenningi.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þingið getur krafið ráðherra um upplýsingar og um svör fyrir gerðir stjórnsýslunnar, en óraunhæft er að ætla að þingið lýsi vantrausti á ráðherra sem situr í skjóli meiri hluta þingsins; það mundi jafngilda stjórnarslitum.“

Svo er, með leyfi forseta, hér haldið áfram:

„Ein ástæða þess að þingið rækir ekki vel eftirlitshlutverk sitt er að stjórnarmeirihlutinn á hverjum tíma styður ríkisstjórnina og því er það í raun stjórnarandstaðan ein sem veitir framkvæmdarvaldinu aðhald.“

Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur verið mjög veik. Það er það sem ég var að benda á, hugsanlegar leiðir til þess að styrkja hana auk þess sem við þurfum að fara að kjósa til stjórnlagaþings þar sem við förum í raunverulegar breytingar á stjórnskipan Íslands. Ég ítreka það sem ég segi þar sem ég vitnaði beint í skýrsluna: (Forseti hringir.)

Á Íslandi hefur ríkt „mun óheftara meirihlutaræði (Forseti hringir.) en í flestum þeim smáríkja í Evrópu sem hafa traustar lýðræðishefðir.“

Þessu þurfum við að breyta.