138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:12]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að karpa við hv. þm. Eygló Harðardóttur um væntingar framsóknarmanna á komandi fundi en ég ætla að vona að hún sé ekki að boða að það sé nóg að hafa eitt kaupfélag á Íslandi. Kaupfélögin eru góð með öðru og hafa staðið sig vel í gegnum tíðina.

Það sem ég sagði um landsbyggðina er rétt. Ég er ekki að velta mér upp úr einstaklingum, hvergi á Íslandi, og það getur árað illa hjá einstaklingum en engin byggð lenti í því hruni sem talað er um núna frá degi til dags. Menn eiga bara að virða það að þessi byggðarlög landsins héldu sjó, þau tóku góðum árum og slæmum árum, unnu úr því og fundu því farveg þannig að það skilaði árangri og urðu ekki vör við neitt gullkálfsæði, það var bara ekki til þar. Allt slíkt tengdist ákveðnum rekstri á höfuðborgarsvæðinu, stofnunum og fyrirgreiðsluaðilum.

Þetta er mergurinn málsins og menn eiga að læra af þessu, að taka hlutunum með stóískri ró og vinna úr því en falla ekki í þá gildru sem varð hér í græðgisstefnu, sukki og svínaríi, virðulegi forseti. Það er það sem skiptir máli til þess að menn nái árangri og auðvitað þurfum við öll að standa saman um að úr því vinnist vel.

Það er fulldjúpt í árinni tekið, eins og hv. þingmaður alhæfði, að forverar okkar hafi logið framan í þjóðina. Það kann að orka tvímælis sem þeir sögðu en það er ekki hægt að alhæfa um það.