138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því eins og flestallir aðrir þingmenn hafa gert að þakka sérstaklega fyrir afar góða, ítarlega og vandaða skýrslu. Ég vil þakka þeim sem stóðu að gerð hennar, bæði rannsóknarnefndinni og siðferðisnefndinni, og ég vil raunar segja að ég tek hattinn ofan fyrir þessu fólki. Það hefur sinnt verk sínu af alúð og sýnt að mínu mati mikla dirfsku. Það hefur nefnilega verið alveg ótrúleg þöggun í hinu íslenska samfélagi okkar og það þarf talsverðan kjark til að sýna þá dirfsku sem þurfti til að útbúa skýrslu af þessu tagi. Við veittum þeim friðhelgi í þinginu samkvæmt lögum, þannig að ekki er hægt að sækja þau til saka fyrir dómstólum vegna skýrslunnar en þrátt fyrir það sýna þau gríðarlega dirfsku með því að koma skýrslunni í það form sem hún er í.

Ég sé líka ástæðu til að þakka Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem átti meira og minna eða a.m.k. mikinn hlut í því að siðferðisnefndin var sett á stofn. Við sameinuðumst svo öll um að fallast á það og telja að slíkt væri til bóta. Fyrrverandi forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, hélt frekar vel utan um það mál allt saman að koma rannsóknarnefndinni í gagnið á sínum tíma. Fyrir þetta allt ber að þakka.

Skýrslan er ekki hvítþvottur, alls ekki. Á sínum tíma fannst mér svolítið óþægilegt þegar formaður rannsóknarnefndarinnar og annar hinna tveggja sem í nefndinni voru ýjuðu að því að skýrslan boðaði mjög slæm tíðindi. Formaðurinn sagði að nefndin þyrfti að flytja þær verstu fréttir til þjóðar sem hægt væri að hugsa sér, og annar hinna tveggja sem í nefndinni voru sagðist hafa verið gráti nær við vinnslu skýrslunnar. Þetta þótti mér frekar óheppilegt að heyra á sínum tíma en ég skil það núna. Ég skil núna af hverju þeim leið svona af því að skýrslan er þannig að það blasir við að nefndarmönnum og líka siðferðisnefndinni hlaut að líða illa yfir þessu, þetta var ekkert skemmtiverk.

Ég er líka ánægð með það eftir á að hyggja, og reyndar gagnrýndi ég það aldrei, að nefndin tæki langan tíma, en ég er mjög ánægð með að við skyldum sýna þá þolinmæði að pressa ekki meira á nefndina en þó var gert til að reyna að skila þessu verki á réttum tíma. Verkið frestaðist ítrekað en það var gott eftir á að hyggja að við biðum, af því að við fengum þá vandaðra verk í hendur. Segja má að þó að nefndin hafi ekki tekið meiri tíma en þó þann tíma sem hún hafði til ráðstöfunar og tók sér er skýrslan eiginlega betri en búast mátti við miðað við tímann sem fór í að útbúa hana.

Samkvæmt skýrslunni voru þeir gríðarlega margir sem brugðust. Það voru auðvitað bankamennirnir og maður er bara í sjokki hreint út sagt að sjá hvernig margt fólk vann í bönkunum og hvernig menn umgengust bankana, hvernig talað var, talsmátinn. Maður sér mjög skrýtinn talsmáta í tölvupóstum sem menn héldu að aldrei yrðu opinberir og ekki bara í tölvupóstunum sem menn héldu að kæmu aldrei fyrir almenningssjónir heldur líka þegar þeir mættu til yfirheyrslu hjá rannsóknarnefndinni, þar var sami talsmátinn. Það er hreint með ólíkindum hvernig þetta allt saman er.

Stjórnmálamennirnir brugðust, margir brugðust, allir brugðust kannski eitthvað aðeins en sumir brugðust illilega. Stjórnsýslan brást, margar mikilvægar stofnanir, og í skýrslunni er auðvitað sérstaklega verið að tilgreina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Endurskoðendur brugðust. Fjölmiðlarnir brugðust, þeir brugðust mjög illa. Það var mjög margt í samfélaginu sem brást. Mesti fókusinn er auðvitað á stjórnmálalífið og stjórnsýsluna en þeir sem voru að vinna í bankakerfinu eru meira og minna til skoðunar hjá sérstökum saksóknara. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan að skýrslan sýni að það hafi verið talsvert mikill brotavilji á ferðinni hjá ýmsum aðilum í bankakerfinu. Við vonum þess vegna að réttlætið nái fram að ganga eftir að þetta allt verður skoðað hjá sérstökum saksóknara.

Sú er hér stendur kallaði eftir skýrri skýrslu, það væri mjög óþægilegt fyrir okkur ef við fengjum óljósa skýrslu sem væri full af einhverjum matsatriðum. Ég er mjög ánægð með að við fáum skýrslu sem er mjög skýr. Ef eitthvað er er hún skýrari en það sem ég kallaði eftir. Það er algjörlega ljóst, það stendur eiginlega skrifað með rauðum stöfum í skýrslunni að það áttu sér stað mikil mistök, það var veruleikafirring í gangi, afneitun og vanræksla. Meira að segja eru tilgreind mörg nöfn, það eru nöfn nokkurra stjórnmálamanna sem eru nefnd í mismunandi samhengi og síðan eru tilgreind nöfn fyrrum ráðherra og bankastjórnenda og yfirmanns í Fjármálaeftirlitinu. Sú einkunn sem viðkomandi aðilar fá, ég vil ekki nota orðið dómur heldur einkunn, einkunnin er vanræksla. Núna er þessi niðurstaða komin til þingsins og að sjálfsögðu munum við reyna að taka eins faglega á þessu máli og hægt er.

Við eigum hins vegar að sýna auðmýkt þegar við ræðum þetta. Við eigum ekki að fara fram með sleggjudóma. Hérna á fólk í hlut, orð er dýr, og ég vil minna á í þessu samhengi — og það er nú orðatiltæki sem einn af fyrrum stjórnmálamönnum Framsóknarflokksins notaði mjög oft á sínum tíma — og það er að „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Þó að við þurfum að fara í gegnum þessa umræðu eigum við samt að sýna ákveðna auðmýkt og ákveðna nærgætni.

Virðulegur forseti. Nú er að byggja upp traust og nú er að nýta skýrsluna til þess. Við hljótum að fara upp úr skotgröfunum sem við höfum því miður verið í hér í þinginu eftir hrun. Við verðum að yfirgefa þær skotgrafir, við verðum að læra, við verðum að spyrja spurninga og við verðum að breyta menningu okkar innan stjórnmálanna. Alþingi hefur fengið slæma einkunn. Við höfum mælst með 13% traust hjá almenningi, það er auðvitað alveg ótrúlega lágt. Ég held að við náum ekki að bæta það traust nema breyta verulega menningunni innan stjórnmálaflokkanna.

Við eigum að líta í eigin barm. Ég spyr sjálfa mig: Hvað gat Framsóknarflokkurinn gert öðruvísi? Gerði hann mistök? Vill hann viðurkenna þau, vill hann gangast við þeim? Ég segi að svarið er já. Við höfum tekið slíka umræðu áður. Við gerðum mistök í Íraksmálinu. Jón Sigurðsson, þáverandi formaður flokksins, greindi frá því á miðstjórnarfundi að flokkurinn bæðist afsökunar á því, hann greindi frá því að við hefðum gert mistök. Við áttum líka hlut að máli þegar bankarnir voru einkavæddir. Það fór ekki eins og lagt var upp með þá. Lagt var upp með dreifða eignaraðild. Þetta skýrir sig allt í skýrslunni. Það fór illa. Við ætluðum að selja í dreifðri eignaraðild en síðan var hætt við það og þetta þurfum við framsóknarmenn líka að ræða.

Virðulegur forseti. Það er svolítið holur hljómur í gagnrýninni hjá eiginlega öllum stjórnmálaflokkunum má segja eftir hrun. Ég tek undir það sem sagt er í skýrslunni að efla þarf góða rökræðusiði hjá þingmönnum. Við eigum að hætta að segja, þú sagðir þetta og þú sagðir hitt. Það vantar sanngirni í umræðuna. Stjórnarflokkarnir eru ekkert alltaf á réttri leið, en við sem erum í stjórnarandstöðu eigum samt að sýna sanngirni. Það er auðveldara um að tala en í að komast, og ég sýni mikinn skilning á því að það hlýtur að vera gríðarlega erfitt að vera við stjórnvölinn á Íslandi í dag, að taka við eftir slíkt hrun, það er gríðarlega erfitt. Þess vegna verðum við öll að sýna sanngirni. Ég held að allir séu að gera sitt besta. Við í stjórnarandstöðunni eigum að sjálfsögðu að veita aðhald en við eigum ekki að sýna ósanngirni. Við eigum að færa rök fyrir málflutningi okkar og ekki fara fram með sleggjudóma.

Ég auglýsi eftir auðmýkt. Mér finnst skorta á hana. Skýrslan sýnir að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki efni á að sýna klærnar, þeir verða að breyta menningu sinni. Þeir verða að fara frá gamla skólanum sem svo er kallað og í þann nýja, þeir verða að fara frá því að klíkuskapur ráði ríkjum og að refsingar séu stundaðar í flokkum. Menn verða að fara frá því. Við verðum að taka upp ný vinnubrögð þar sem við, bæði þeir sem eru trúnaðarmenn og aðrir í flokkunum, hugsum um almannaheill og nálgumst verkefnin af heiðarleika, hógværð og auðmýkt. Einungis á þann hátt getum við nýtt þessa skýrslu til að efla traust. Við erum með verkfærið í höndunum og ef við nýtum það ekki núna, stað og stund, fer illa. Nú verðum við að skynja stað og stund, við sem erum í flokkakerfinu á Íslandi, og nýta skýrsluna til að byggja upp traust.