138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kröfuhafar gömlu bankanna hafa gengist við því að ríkisvaldið þurfi ekki að koma með eigið fé inn í nýju bankana og teljast þess vegna núna eigendur nýju bankanna. Ég deili því alveg með hv. þingmanni að ég vildi gjarnan vita nákvæmlega hverjir þetta eru þannig að við þurfum ekki að eyða lengri tíma í það. Ég skal vera fyrsta manneskjan til að segja frá því ef ég fæ nákvæma skýrslu um það.

Ég ætla sannast að segja ekki að fara út í samanburð á þessari þvinguðu svokölluðu einkavæðingu bankanna og þeirri einkavæðingu bankanna sem varð hér árið 2000. Ég vil líka benda hv. þingmanni á að ég hef ekki skorast undan og ég skorast ekki undan því að tala um þátt Samfylkingarinnar í stjórn landsins undanfarin ár. Ég sagði einnig, og vil ítreka það, að ég tel að aðferðin við einkavæðingu bankanna hér áður tilheyri engri stjórnmálaskoðun. Það er engin stjórnmálaskoðun á bak við hana.