138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðum mínum einmitt rætt um eignarhald á bönkunum og þá staðreynd að bankarnir voru einkavæddir á ný af þessari ríkisstjórn. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að þetta sé nú kannski ekkert svo flókið. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þetta enn þá flókið, vegna þess að eignarhald á Arion banka og Íslandsbanka liggur ekki fyrir. Við vitum ekki hverjir eigendurnir eru. Það er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta séu erlendir kröfuhafar, einhverjir innlendir aðilar og lífeyrissjóðir, en hverjir? Hverjir eru það og hverjir munu eignast bankana?

Að mínu mati er rangt að halda því fram að íslenska ríkið hafi ekki tekið eignarhaldið fullkomlega til sín, eins og hæstv. fjármálaráðherra hélt fram nú rétt áðan. Landsbankinn er að meiri hluta í eigu íslenska ríkisins og það verður íslenska ríkisins, hæstv. fjármálaráðherra meðal annarra, að taka ákvörðun um að einkavæða hann á ný. Ég bendi á að þegar menn gagnrýna réttilega einkavæðinguna sem fór fram 2002 — menn gleyma reyndar vísvitandi að minnast á það að Íslandsbanki var ekki einkavæddur — verða þeir að fara yfir þessa umræðu af hófsemi og útskýra þetta.

Það er rétt að Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir eignarhaldið. Við skulum hafa það í huga að eignarhaldið var á sínum tíma blessað af hinum og þessum. Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) tók einkavæðinguna út en allir sjá í dag að þessum stofnunum urðu á mistök. Við skulum ekki ganga svo langt að halda því fram að þessar stofnanir (Forseti hringir.) og við sem erum á Alþingi séum óskeikul.